Barátta milli Henderson og Dier

Gareth Southgate ætlar sér að spila með einn varnarsinnaðan miðjumann …
Gareth Southgate ætlar sér að spila með einn varnarsinnaðan miðjumann í fyrstu tveimur leikjunum á HM í Rússlandi. AFP

Gareth Southgate, þjálfari enska landsliðsins í knattspyrnu ætlar sér að spila með einn djúpan miðjumann í leikjunum gegn Túnis og Panama í riðlakeppni HM í Rússlandi sem hefst í næstu viku. Southgate tilkynnti þessa ákvörðun sína á blaðamannafundi í dag en England er einnig með Belgíu í G-riðli mótsins.

Enskir munu því sækja til sigurs í fyrstu tveimur leikjum sínum sem þýðir að annaðhvort Jordan Henderson, fyrirliði Liverpool eða Eric Dier, miðjumaður Tottenham þarf að gera sér það að góðu að sitja á bekknum í fyrstu tveimur leikjunum.

„Annaðhvort velur þú leikmenn í liðið eða þú velur þér leikkerfi og þá leikmenn sem henta best hverju sinni. Þetta eru oft á tíðum erfiðustu ákvarðanirnar. Þetta eru báðir mjög mikilvægir leikmenn fyrir okkur, innan vallar sem utan,“ sagði Southgate á blaðamannafundi í dag.

„Ég mun spila með einn varnarsinnaðan miðjumann í fyrstu leikjunum og það gefur augaleið að annaðhvort Jordan eða Eric gæti þurft að byrja á bekknum,“ sagði þjálfarinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert