Stundum jákvætt að tapa vináttuleikjum

Gana vann 2:0 sigur á Japan í vináttuleik í síðustu …
Gana vann 2:0 sigur á Japan í vináttuleik í síðustu viku. AFP

„Þetta er síðasti vináttuleikur okkar fyrir leikinn gegn Kenía í september í undankeppni Afríkukeppninnar. Það er mjög gott fyrir okkur sem lið að fá þennan leik og þetta gefur mér tækifæri til þess að skoða leikmenn sem hafa ekki verið fastamenn í landsliði okkar,“ sagði James Appiah, landsliðsþjálfari Gana á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í kvöld en liðið mætir Íslandi í vináttuleik í knattspyrnu á Laugardalsvelli á morgun. 

„Það er líka gott fyrir Ísland að fá þennan leik þar sem að þeir eru með Nígeríu í riðli á HM í Rússlandi og þetta er góður undirbúningur fyrir þá líka. Liðin frá Afríku spila öll svipaðan fótbolta. Flest öll lið eru með sterka og öfluga einstaklinga innanborðs en það vantar aðeins upp á aga og skipulag.“

Appiah sá íslenska liðið tapa fyrir Noregi í vináttuleik á dögunum en hann hefur hrifist mikið af íslenska liðinu.

„Ég sá Ísland spila gegn Noregi og þeir eru með mjög sterkt lið. Þeir töpuðu vissulega en það er stundum jákvætt að tapa vináttuleikjum því þá áttar maður sig á veikleikum sínum. Þeir eru mjög líkamlega sterkir og verjast vel. Þeir eru skipulagðir og þeir klára færin sín vel í sóknarleiknum.

Þjálfarinn ætlar að gefa ungum og óreyndari leikmönnum tækifæri í leiknum á morgun.

„Ég er bara að einbeita mér að mínum leikmönnum og ég vil sjá þá bæta sig sem einstaklinga og sem lið. Við erum með ungt lið og ég er að gefa strákum tækifæri sem eiga ekki marga landsleiki á bakinu þannig að það er ekki mikil reynsla í liðinu. Íslenska liðið er mjög sterkt í föstum leikatriðum. Þeir eru hávaxnir og við þurfum að hafa góðar gætur á þeim en það eru líka veikleikar í íslenska liðinu og vonandi getum við nýtt okkur þá á morgun og ég er spenntur að sjá hvernig ungu strákunum tekst til. Við viljum halda boltanum á móti þeim. Við erum lið sem viljum vera með boltann og við munum reyna að pressa þá þegar að íslenska liðið er með boltann. Það færir liðum oft aukið sjálfstraust að vera með boltann og það er eitthvað sem við viljum alls ekki,“ sagði þjálfarinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert