Auðveldara að spila bakvörð með landsliðinu

Hólmar Örn Eyjólfsson og Albert Adomah í leiknum í kvöld.
Hólmar Örn Eyjólfsson og Albert Adomah í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér leið ágætlega í hægri bakverðinum. Það er örugglega auðveldara að spila hægri bakvörð með íslenska landsliðinu því það er mikil samvinna og menn sinna varnarvinnunni vel,“ sagði Hólmar Örn Eyjólfsson, varnarmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu í samtali við mbl.is eftir 2:2 jafntefli liðsins gegn Gana í vináttuleik á Laugardalsvelli í kvöld.

„Þetta eru tvær ólíkar stöður, þótt þær séu hlið við hlið á vellinum. Þú leitar meira út á kant sem bakvörður en ég ákvað frekar að halda miðjunni og vera öruggur í varnarleiknum í staðinn fyrir að opna svæðið á bakvið mig.“

Íslenska liðið átti frábæran fyrri hálfleik og var 2:0 yfir í leikhléi en seinni hálfleikurinn var slakur og jöfnuðu Gana menn metin undir restina.

„Það var gaman að kljást við þessa stráka í Gana. Þú ert ekki jafn mikið í líkamlegum návígum en þegar að það gerðist þá gekk það vel fannst mér. Við vorum öflugir í fyrri hálfleik en dettum of aftarlega í seinni hálfleik og þegar að við unnum boltann þá vorum við einfaldlega of aftarlega á vellinum til þess að spila okkur út úr pressunni þeirra,“ sagði Hólmar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert