Er betri núna en ég var fyrir leik

Hannes Þór Halldórsson slær boltann frá marki Íslands í kvöld.
Hannes Þór Halldórsson slær boltann frá marki Íslands í kvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Maður verður að taka það góða úr þessu og taka út litlu sigrana þar sem við unnum ekki leikinn. Ég er ánægður með að hafa spilað, það eru tvær vikur síðan ég spilaði síðast og ég hef verið að æfa á hálfum krafti," sagði Hannes Þór Halldórsson, markmaður landsliðsins eftir 2:2-jafntefli við Gana í kvöld í síðasta vináttuleik landsliðsins fyrir lokakeppni HM í Rússlandi. 

Hannes viðurkennir að hann beitti sér ekki 100% í leiknum vegna nárameiðsla.

„Ég er búinn að vera stífur í náranum og hef verið að jafna mig á því. Tilfinningin hefur verið sú að þetta hefur ekki verið alvarlegt en maður er extra óöruggur með þetta þegar HM er fram undan. Ég hef ekki gefið allt í botn og ég var ekki að sparka af fullu afli í boltann í dag."

Ekkert til fyrirstöðu lengur

„Ég er mjög feginn að hafa komist í gegnum leikinn og að allir séu ómeiddir, en ég er hundfúll með seinni hálfleikinn. Þetta er blanda af svekkelsi því maður vill alltaf vinna en svo er líka léttir að það sé ekkert til fyrirstöðu lengur, ekki einu sinni æfing áður en við förum út. Nú er það bara flug og að henda sér í þetta ævintýri."

Eins og gefur að skilja var Hannes ósáttur við mörkin tvö sem hann fékk á sig. 

„Við sofnum á verðinum í hornspyrnumarkinu sem þeir skoruðu. Ef við hefðum haldið þeim í 2:0 aðeins lengur hefði slokknað í þeim og við siglt þessu heim. Við erum ekki vanir að fá mörk á okkur í föstum leikatriðum, en ég hef aldrei séð neinn hitta boltann eins vel og þegar hann skýtur. Hann smurði hann upp í skeytin. Í seinni markinu komast þeir í gegnum okkur og það er eins og það vanti að setja pressu á boltann. Ég skynjaði að það væri hætta á ferðum því þeir komust of auðveldlega nálægt teignum okkar.

Hannes er að eigin sögn í betra standi núna en hann var fyrir leik. 

„Þetta var ákveðið test hvort ég gæti sparkað almennilega í boltann og það tókst vel. Ég er betri núna en ég var fyrir leik," sagði Hannes Halldórsson að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert