Hnéð er í toppmálum

Gylfi Þór Sigurðsson spilaði í tæpar 70. mínútur í kvöld …
Gylfi Þór Sigurðsson spilaði í tæpar 70. mínútur í kvöld og var besti maður íslenska liðsins í leiknum. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Fyrri hálfleikurinn hjá okkur í kvöld var mjög góður. Við vorum hættulegir fram á við og vörðumst vel,“ sagði Gylfi Þór Sigurðsson, miðjumaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu í samtali við mbl.is eftir 2:2 jafntefli liðsins gegn Gana í vináttuleik á Laugardalsvelli í kvöld.

„Þetta snérist algjörlega við í seinni hálfleik. Við vorum hægir duttum aftarlega á völlinn. Við náðum aldrei upp neinu spili, sérstaklega undir lok leiksins og vorum í raun bara heppnir að tapa þessu ekki.“

Gylfi byrjaði leikinn í kvöld og spilaði í tæpar 70. mínútur sem eru frábærar fréttir fyrir Íslendinga en hann er að koma til baka eftir erfið hnémeiðsli.

„Mér líður mjög vel. Ég fann ekki fyrir neinu í leiknum sem er mjög jákvætt og ég hefði alveg getað spilað lengur. Það kom mér á óvart hversu góðu standi ég er í ef ég á að vera hreinskilinn. Ég er vissulega nokkrum æfingum frá því að komast í mitt besta leikform en þetta lítur mjög vel út. Hnéð er í toppmálum,“ sagði Gylfi léttur að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert