Nýtti ekki tækifærið

Leroy Sané, til vinstri, á æfingu með þýska landsliðinu.
Leroy Sané, til vinstri, á æfingu með þýska landsliðinu. AFP

Miroslav Klose, fyrrverandi landsliðsmaður Þjóðverja í knattspyrnu sem er nú í þjálfarateymi landsliðsins, styður þá ákvörðun landsliðsþjálfarans Joachim Löw að velja ekki Leory Sané leikmann Englandsmeistara Manchester City í HM-hópinn.

Það vakti furðu marga þegar Sané var settur út í kuldann en hann átti frábært tímabil með Manchester City og var útnefndur besti ungi leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildinni. Klose segir að Sané hafi einfaldlega ekki nýtt tækifærið sem hann fékk með landsliðinu, bæði í leikjum með því og á æfingum, til að vera valinn í hópinn umfram Julian Brandt.

„Við gerðum þetta í samráði allir þjálfararnir. Sané veit að hann er afar hæfileikaríkur og hefur hraða sem við sjáum ekki oft. Hann sýndi það í ensku úrvalsdeildinni en í hreinskilni sagt þá komu upp mörg tilfelli á æfingum og í leikjum með landsliðinu sem hann náði ekki gera hluti eins og hann gerði í leikjunum í ensku úrvalsdeildinni. Ég hef sagt það áður að þetta var erfið ákvörðun. Þessi ákvörðun féll með Julian en ekki á móti Leroy. Það var mjótt á mununum,“ sagði Klose við fréttamenn.

Heimsmeistarar Þjóðverja ljúka undirbúningi sínum fyrir HM á morgun þegar þeir spila vináttuleik við Sádi-Arabíu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert