Verður gott að komast í smá hita

Helgi Kolviðsson fylgist með gangi mála á Laugardalsvelli í kvöld.
Helgi Kolviðsson fylgist með gangi mála á Laugardalsvelli í kvöld. mbl.ils/Eggert Jóhannesson

„Við fengum fullt af jákvæðum svörum í þessum tveimur vináttuleikjum gegn Noregi og Gana. Gana er með mjög sterkt lið og þeir eru alls ekki ólíkir Nígeríu og það var gott fyrir strákana að spila þennan leik í kvöld“ sagði Helgi Kolviðsson, aðstoðarþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í samtali við mbl.is eftir 2:2 jafntefli liðsins gegn Gana í vináttuleik á Laugardalsvelli í kvöld.

„Markmiðið fyrir þessa tvo vináttuleiki var að menn væru heilir þegar á hólminn er komið í Rússlandi og það tókst. Það vantar kannski nokkur prósent upp á hjá mönnum í þessum æfingaleikjum, af hverju veit ég ekki en ég er bara feginn að þetta sé búið og nú tekur bara alvaran við.“

Helgi er orðinn spenntur að komast til Rússlands þar sem liðið mun æfa í mun meiri hita en hefur verið á Íslandi.

„Við erum að fara út á laugardaginn og það er það sem skiptir máli. Við höfum æft óreglulega með marga leikmenn, meðal annars vegna smávægilegra meiðsla. Strákarnir hafa sýnt það á æfingum að þeir eru klárir. Við höfum gert meira á æfingum en við erum vanir. Núna förum við til Rússlands og það verður gott að fá æfingar þar í hitanum. Markmiðið er svo auðvitað að allir séu í 100% standi þegar að við mætum Argentínu í fyrsta leik á HM,“ sagði Helgi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert