Brasilía hitaði upp með þremur mörkum

Neymar henti sér úr treyjunni til að fagna.
Neymar henti sér úr treyjunni til að fagna. AFP

Brasilía vann sannfærandi 3:0-sigur á Austurríki í síðasta vináttuleik sínum fyrir HM í Rússlandi í dag. Leikið var á Ernst Happel-vellinum í Vínarborg. 

Gabriel Jesus, framherji Manchester City, skoraði eina mark fyrri hálfleiks áður en Neymar og Philippe Coutinho bættu við mörkum í þeim síðari og þar við sat.

Brasilía hefur leikið fjóra vináttuleiki á síðustu mánuðum og unnið þá alla án þess að fá á sig mark og verður stórþjóðin að teljast líkleg til afreka í Rússlandi.

Brasilía mætir Sviss í fyrsta leik sínum á HM þann 17. júní næstkomandi, en Kosta Ríka og Serbía eru einnig í E-riðlinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert