Gæti hætt eftir HM

Lionel Messi og samherjar ganga frá borði í flugvélinni á …
Lionel Messi og samherjar ganga frá borði í flugvélinni á Zhukovsky flugvellinum nálægt Moskvu í gær. AFP

Lionel Messi fyrirliði argentínska landsliðsins í knattspyrnu, sem verður fyrsti mótherji Íslands á HM í Rússlandi, segir vel koma til greina að hann hætti að leika með landsliðinu eftir HM en það velti á gengi liðsins á mótinu.

Messi, sem af mörgum er talinn besti knattspyrnumaður heims og sá besti fyrr og síðar, hefur aldrei unnið stóran titil með Argentínumönnum og það er mikil pressa á honum og samherjum hans að gera það gott í Rússlandi og hampa heimsmeistaratitlinum. Á HM í Brasilíu töpuðu Argentínumenn fyrir Þjóðverjum í úrslitaleik.

Spurður hvort hann ætli að hætta í landsliðinu eftir HM sagði Messi;

„Ég veit það ekki. Það fer eftir því hvernig mótið fer. Staðreyndin er sú að við höfum tapað þremur úrslitaleikjum. Það er ekki auðvelt að komast í úrslit á þremur mótum í röð en mikilvægasta er að vinna þá,“ sagði Messi við spænska blaðið Sport en auk þess að tapa úrslitaleiknum á móti Þýskalandi hefur Argentína tapað tveimur úrslitaleikjum í röð í Suður-Ameríkukeppninni.

Messi er markahæsti leikmaður Argentínumanna frá upphafi en hann hefur skorað 64 mörk í 124 leikjum með argentínska landsliðinu. Mikil pressa er á honum frá argentínsku þjóðinni að hann hampi heimsmeistaratitlinum en Argentínumenn unnu titilinn síðast árið 1986.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert