Gaman að byrja þetta fyrir alvöru

„Okkur líst mjög vel á þetta og það er gaman að þetta skuli nú vera að byrja fyrir alvöru í dag,“ segir Guðni Bergsson, formaður KSÍ, en hann ræddi við mbl.is fyrir fyrstu æfingu íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu í Rússlandi.

Íslenski hópurinn lenti í gærkvöldi og æfir þessa stundina í talsvert miklum hita á æfingasvæði sínu í Gelendzhik, fyrir framan tæplega 1.000 áhorfendur.

„Maður finnur að spennan er að aukast og ég held að með hverjum deginum verði maður bara spenntari og spenntari. Maður getur varla beðið og hvað þá þeir. Það er auðvitað bara virkilega gaman að upplifa þetta,“ segir Guðni. Aðspurður hvernig hann sjái fyrir sér fyrsta leik Íslands, gegn Argentínu næsta laugardag, segir gamli landsliðsmaðurinn:

„Ég held að við verðum að sjálfsögðu skynsamir, förum okkur hægt og örugglega í þeim leik. Það er mikilvægt að ná taktíkinni vel, við höfum gert það alla jafna, og ef við verjumst vel og gerum þeim erfitt fyrir þá held ég að við sjáum okkur síðan komast betur inn í leikinn. Auðvitað er stefnt að því að vinna eins og alla leiki. Þetta verður sannarlega áhugaverð viðureign, svo ekki sé meira sagt.“

Og Guðni kveðst bjartsýnn á að Ísland nái því markmiði sínu að komast upp úr D-riðli, sem sumir kalla dauðariðilinn:

„Já, ég er það. Ég er bara hóflega bjartsýnn. Ef við spilum eftir okkar bestu mögulegu getu þá held ég að það séu bara góðar líkur á að við komumst upp. En við verðum að ná góðum leikjum. Það getur verið að það dugi ekki en ég held að það muni duga, ef við náum að spila vel í tveimur og hálfum af þessum þremur leikjum, og við komumst upp úr þessum riðli. En hann er erfiður, þetta eru hörkulið og það verður eflaust mjótt á mununum.“

Guðni Bergsson og Aron Einar Gunnarsson.
Guðni Bergsson og Aron Einar Gunnarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert