Oft eins og beljurnar á vorin

Það var gott hljóðið í Heimi Hallgrímsson landsliðsþjálfara í knattspyrnu eftir fyrstu æfingu landsliðsins í Gelendzhik í Rússlandi í dag.

„Fyrstu kynnin við svæðið er bara mjög gott. Við höfum hrósað Rússunum hvað þeir hafa unnið vel í öllum málum. Þetta svæði var til að mynda rústir einar fyrir ári síðan. Við erum mjög ánægðir með það sem við höfum séð til þessa,“ sagði Heimir í samtali við mbl.is í dag.

Aron Einar Gunnarsson, Birkir Bjarnason, Alfreð Finnbogason og Ragnar Sigurðsson tóku lítinn sem engan þátt í æfingunni i dag og spurður út í það sagði Heimir;

„Það var smá stirðleiki og smá þreyta í þeim eftir leikinn við Gana. Við viljum ekki taka neina áhættu á fyrstu æfingunni. Hún er oft hættuleg. Þetta er oft eins og beljurnar á vorin, gott veður, gott gras og því var mjög klókt af þeim að taka æfinguna sér og vera með sjúkraþjálfurum.

Miðað við hvernig staðan er á Aroni Einari núna þá eru allar líkur á að hann spili en eins og með öll meiðsli þá getur bakslag ef við förum of geyst af stað. Eins og þetta lítur út núna þá reiknum við með að hann spili,“ sagði Heimir en allt viðtalið má sjá í spilaranum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert