Undanúrslitin gott markmið

Argentínumenn á æfingu.
Argentínumenn á æfingu. AFP

Claudio Tapia forseti argentínska knattspyrnusambandsins telur að það sé gott markmið að stefna á að komast í undanúrslitin á heimsmeistaramótinu í knattspyrnu en Argentínumenn etja kappi við Íslendinga í fyrsta leik sínum í Moskvu á laugardaginn.

Argentínumenn, sem tvisvar sinnum hafa hampað heimsmeistaratitlinum, komust í úrslit á HM í Brasilíu fyrir fjórum árum en töpuðu fyrir Þjóðverjum í úrslitaleiknum. Argentínumenn eru ekki taldir upp á meðal sigurstranglegustu þjóðanna á HM en þeir voru ekki sannfærandi í undankeppninni og réttu skriðu inn í úrslitin á HM.

„Að komast í undanúrslitin er jákvætt og gott markmið,“ sagði Tabia í viðtali við argentínska fjölmiðilinn TyC Sports.

Lionel Messi fyrirliði argentínska landsliðsins hefur aldrei unnið stóran titil með Argentínu en hann hefur sankað að sér titlum með liði Barcelona mörg undanfarin ár.

„Messi gefur argentínskum fótbolta mikið og hann er sá besti í veröldinni,“ segir forsetinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert