Fæ vonandi hlutverk inni á vellinum

„Nú er að koma að þessu og við erum bara mjög spenntir og ég held verði mikill spenningur að fljúga til Moskvu og taka þar æfingu á morgun,“ sagði Ólafur Ingi Skúlason landsliðsmaður í samtali við mbl.is í dag fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Kabardinka í Rússlandi.

Landsliðið flýgur seinni partinn í dag til Moskvu og mætir Argentínumönnum í fyrsta leiknum á HM á laugardaginn.

„Vonandi náum við eins langt og möguleiki er á. Við höfum sagt að við ætlum að komast upp úr riðlinum. Vonandi gengur það eftir. Það yrði alveg geggjað,“ sagði Ólafur Ingi, sem á sínu fyrsta stórmóti en hann var ekki valinn í landsliðshópinn sem lék á EM í Frakklandi fyrir tveimur árum.

„Ég vona að sjálfsögðu að ég fái eitthvert hlutverk inni á vellinum. Ég geri mér alveg grein fyrir mínu hlutverki og veit að ég er ekki að fara að byrja marga leiki. Ég verð að sjálfsögðu klár ef kallið kemur og ef við erum yfir í einhverjum leik og þurfum að halda út. Þá er ég klár að koma inn og loka þeim leik. En að sjálfsögðu undirbý ég mig eins og ég sé að fara að spila,“ sagði Ólafur.

„Styrkleiki Argentínu er klárlega sóknarleikurinn. Þeir erum með nokkra leikmenn sem geta gert út um leiki og þeir eru með einn besta fótboltamann í heiminum í dag sem er Messi. Það eru rosaleg gæði í argentínska liðinu út um allan völl og við þurfum að reyna að loka á eins og við getum. Við verðum að vera eins þéttir fyrir og við getum.

Við vitum hvaða styrkleika og veikleika við höfum. Argentínumennirnir eru ekkert sérstaklega varnarsinnaðir og við þurfum að nýta þá möguleika sem við fáum, í skyndisóknum og í föstu leikatriðum, sagði Ólafur Ingi sem nýlega gekk í raðir síns uppeldisfélags,“ Fylkis. Allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.

Ólafur Ingi Skúlason ræðir við fjölmiðlamenn í morgun.
Ólafur Ingi Skúlason ræðir við fjölmiðlamenn í morgun. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert