Króatar senda mann heim vegna ósættis

Nikola Kalinic á Laugardalsvellinum síðasta haust.
Nikola Kalinic á Laugardalsvellinum síðasta haust. mbl.is/Kjartan Þorbjörnsson

Króatar hafa sent Nikola Kalinic heim eftir að framherjinn neitaði að koma inn á í fyrsta leik liðsins á heimsmeistaramótinu gegn Nígeríu í fyrradag.

Zlatko Dalic, landsliðsþjálfari Króatíu, sagði Kalinic að gera sig kláran undir lokin í 2:0-sigrinum á Nígeríu en sóknarmaðurinn var ekki klár í slaginn og neitaði að koma inn á. Þessi 30 ára leikmaður var því sendur heim í morgun en Dalic sagði frá brottrekstrinum á blaðamannafundi króatíska liðsins í dag.

„Hann var ekki heill heilsu fyrir vináttulandsleikinn gegn Brasilíu um daginn og sagðist ekki vera það heldur í fyrradag,“ sagði Dalic við blaðamenn.

„Ég þarf leikmenn sem eru heilir svo ég sendi hann heim,“ bætti hann við en talið er að ósætti ríki milli þeirra tveggja. Ekki er ólíklegt að landsliðsferli Kalinic sé lokið en hann á 41 landsleik að baki og 15 mörk frá árinu 2008.

Króatía leikur í riðli með Íslandi og mætast liðin í lokaumferðinni 26. júní í Rostov.

Zlatko Dalic, landsliðsþjálfari Króata.
Zlatko Dalic, landsliðsþjálfari Króata. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert