„Rúrik loksins að fá þá viðurkenningu sem hann á skilið“

Rúrik Gíslason á æfingu landsliðsins í Kabardinka í gær.
Rúrik Gíslason á æfingu landsliðsins í Kabardinka í gær. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Þetta er náttúrlega bara fyndið og léttmeti í hópnum,“ sagði Alfreð Finnbogason um þá gríðarmiklu athygli sem Rúrik Gíslason hefur fengið á samfélagsmiðlum eftir að hann kom inn á sem varamaður í 1:1-jafntefli Íslands og Argentínu á HM í knattspyrnu.

Þegar þetta er skrifað er Rúrik kominn með 622 þúsund fylgjendur á Instagram og hann er á góðri leið með að verða vinsælasti Íslendingurinn á myndamiðlinum. Á hóteli landsliðsins hér í Kabardinka virðist mikið grínast með þessar vinsældir Rúriks og hugsanlegar ástæður þeirra:

„Þetta er skemmtilegt, sérstaklega fyrir hann, og við hlæjum að þessu. Þetta byrjaði bara í klefa eftir leik. Hann var allt í einu kominn með 70 þúsund fylgjendur, svo var það komið upp í 75. Ég veit ekki hvað var að gerast þarna í Suður-Ameríku meðan á leiknum stóð, en þetta var gaman fyrir hann og hans virði,“ sagði Alfreð en þeir Hannes Þór Halldórsson svöruðu spurningum fjölmiðla á blaðamannafundi í dag.

„Rúrik er bara loksins að fá þá viðurkenningu sem hann á skilið fyrir hvað hann er myndarlegur,“ skaut Hannes inn í. Alfreð var svo spurður hvort Rúrik legði ekki mikla vinnu í hverja færslu nú þegar fylgjendurnir væru svona margir:

„Það var mikil vinna lögð í færslurnar fyrir. Við vorum aðeins að stríða honum á því að hann hefði ekkert birt í tvo daga eftir þessa miklu hylli. Núna eru fleiri fylgjendur sem þarf að sinna og hann þarf að leggja ennþá meiri vinnu í þetta,“ sagði Alfreð laufléttur og bætti við: „Þetta truflar auðvitað ekkert liðið. Þetta er bara skemmtilegt og dregur aðeins athyglina á eitthvað annað en fótbolta. Ég get alveg sagt að honum leiðist þetta ekkert.“

Rúrik hefur slegið í gegn á Instagram.
Rúrik hefur slegið í gegn á Instagram. mbl.is/Skapti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert