Verðum að halda jákvæðninni gangandi

Jón Daði Böðvarsson og Birkir Bjarnason á fullri ferð.
Jón Daði Böðvarsson og Birkir Bjarnason á fullri ferð. mbl.is/Eggert

„Eftir fína frammistöðu í síðasta leik þá auðvitað leiðinlegt að sitja á bekknum í dag. Það kom í minn hlut í dag,“ sagði Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu eftir tapið fyrir Nígeríu í dag. 2:0, á heimsmeistaramótið í knattspyrnu. Mörgum að óvörum þá sat Emil á varamannabekknum allan leikinn í dag eftir að hafa verið einn besti leikmaður íslenska liðsins í jafnteflinu við Argentínu á laugardaginn.

„Vegna breytinga á leikkerfinu frá síðasta þá var ég ekki í byrjunarliðinu í dag. Ég var tilbúinn að koma hvenær sem var inn á meðan leikurinn fór fram. Því miður þá fór leikurinn eins og hann fór. Niðurstaðan er leiðinleg fyrir alla í liðinu,“ sagði Emil.

Emil sagði erfitt að meta það svo snemma eftir leik hvað hafi farið úrskeiðis hjá íslenska liðinu. Hinsvegar hafi alla tíð verið ljóst að leikurinn yrði erfiður. Það hafi komið á daginn.

„Tækifærið er ennþá fyrir hendi þrátt þessi úrslit. Við verðum að halda jákvæðninni gangandi því ef við ætlum að falla í neikvæðni og depurð þá verður næsti leikur erfiður. Ég hef trú á að við förum upp úr riðlinum meðan einhver von er fyrir hendi,“ sagði Emil Hallfreðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert