Íslendingum er sama hvað aðrir segja

Alfreð Finnbogason velti ummælum Messi ekki mikið fyrir sér.
Alfreð Finnbogason velti ummælum Messi ekki mikið fyrir sér. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Norðurlöndin á HM í fótbolta í Rússlandi; Ísland, Svíþjóð og Danmörk gætu öll komist í 16-liða úrslit keppninnar. Þrátt fyrir það hafa þau öll verið gagnrýnd fyrir að spila leiðinlegan fótbolta, en þeim er alveg sama, eins og BBC bendir skemmtilega á í grein sinni sem birt var í gær. 

Danir hafa enn ekki tapað leik á mótinu, en þrátt fyrir það eru margir stuðningsmenn ósáttir við spilamennsku liðsins, sem þykir með leiðinlegra móti. „Við höfum ekki tapað í 17 leikjum, hvað vill fólk meira?" sagði Åge Hareide, landsliðsþjálfari Dana við fréttamenn. 

Danir urðu óvænt Evrópumeistarar árið 1992 og danska liðið þótti með þeim skemmtilegri á HM 1986. Danskir stuðningsmenn minnast frekar þeirra landsliða, en liðinu sem leikur á HM í dag. „Danir vilja láta kalla sig Brassa Skandinavíu og ég vissi að þessi fótbolti yrði ekki vel séður í landinu," bætti Hareide við. 

Ekki hægt að gagnrýna Ísland

Lionel Messi gagnrýndi svo íslenska liðið eftir óvænt 1:1-jafntefli Argentínu og Íslands í 1. umferð. Alfreð Finnbogasyni var alveg sama um ummæli Messi. „Fólk má hafa sína skoðun, en okkur er alveg sama. Við gætum hafa sótt á Argentínu og Messi hefði orðið glaður og við tapað 5:0. Við spilum svona til að ná árangri," sagði Alfreð. 

Margir Þjóðverjar gagnrýndu svo sænska landsliðið eftir 2:1-sigur heimsmeistaranna á Svíum í 2. umferð. „Af hverju ættum við að spila öðruvísi ef það hentar okkur ekki?" sagði Sebastian Larsson, einn af mikilvægustu leikmönnum Svía. 

Håkan Mild var í liði Svía sem endaði í 3. sæti á HM 1994, styður leikaðferð Norðurlandanna. „Þetta snýst um að spila á styrkleikum þínum og reyna að vinna. Það er ekki hægt að gagnrýna Ísland sem er aðeins með 350.000 íbúa. Liðið er oft varnarsinnað en það þýðir ekki að leikmennirnir séu slakir. Þú verður að aðlagast til að spila á móti sterkum liðum. Þeim er einfaldlega alveg sama hvað aðrir segja," sagði Mild. 

Danir hafa verið gagnrýnir, þrátt fyrir að vera taplausir.
Danir hafa verið gagnrýnir, þrátt fyrir að vera taplausir. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert