Danir náðu ekki að skora gegn Túnis

Andreas Cornelius skallar í stöngina á marki Túnisa af örstuttu …
Andreas Cornelius skallar í stöngina á marki Túnisa af örstuttu færi í síðari hálfleiknum. AFP/Francois-Xavier Marit

Danmörk og Túnis gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leiknum í D-riðli heimsmeistaramóts karla í fótbolta í Al Rayyan í Katar í dag.

Túnisar fengu besta færi fyrri hálfleiks þegar Kasper Schmeichel varði frá Issam Jebali úr dauðafæri. Í  seinni hálfleik voru Danir nær því að brjóta ísinn og Andreas Cornelius var næstur því þegar hann skallaði í stöng af örstuttu færi.

Frakkland og Ástralía eru hin tvö liðin í D-riðlinum og þau mætast í kvöld klukkan 19.

Túnisar áttu fyrsta hættulega skotið á 11. mínútu þegar Mohamed Dräger átti hörkuskot þar sem boltinn breytti stefnu af varnarmanni og fór rétt framhjá danska markinu.

Túnisar komu boltanum í netið á 23. mínútu en Issam Jebali var réttilega dæmdur rangstæður. Aissa Laidouni ógnaði Dönum á 39. mínútu þegar hann átti hörkuskot rétt framhjá marki þeirra.

Kasper Schmeichel markvörður Dana ver frá Issam Jebali úr dauðafæri …
Kasper Schmeichel markvörður Dana ver frá Issam Jebali úr dauðafæri í fyrri hálfleiknum. AFP/Jewel Samad

Issam Jebali komst í dauðafæri á 43. mínútu, einn gegn Kasper Schmeichel í danska markinu en Schmeichel varði glæsilega frá honum.

Thomas Delaney, miðjumaður Dana,  fór meiddur af velli undir lok fyrri hálfleiksins. Staðan var 0:0 í hálfleik eftir að Danir höfðu sótt meira en gengið illa að skapa færi gegn öflugum varnarleik Túnisa sem fengu hættulegustu marktækifæri hálfleiksins.

Andreas Skov Olsen kom boltanum í mark Túnis á 56. mínútu en markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu. Mínútu síðar varði Aymen Dahmen í marki Túnis glæsilega frá Kasper Dolberg af stuttu færi.

Aissa Laidouni tæklar boltann af fótum Christian Eriksens á upphafsmínútunum …
Aissa Laidouni tæklar boltann af fótum Christian Eriksens á upphafsmínútunum í leik Danmerkur og Túnis. AFP

Dahman varði aftur mjög vel á 69. mínútu þegar Christian Eriksen skaut úr  góðu færi. Upp úr hornspyrnu í kjölfarið skallaði Andreas Cornelius í stöngina á marki Túnis af örstuttu færi.

Í uppbótartíma leiksins átti Jesper Lindström óvænt langskot utan af kanti sem Dahman varði naumlega í horn.

Í kjölfarið handlék leikmaður Túnis boltann í vítateignum en eftir skoðun á myndbandsskjá taldi dómari leiksins að ekki væri um vítaspyrnu að ræða.

Lið Danmerkur:
Mark: Kasper Schmeichel.
Vörn: Joachim Andersen, Simon Kjær (Mathias Jensen 65.), Andreas Christensen.
Miðja: Rasmus Kristensen, Pierre-Emil Höjbjerg, Thomas Delaney (Mikkel Damsgaard 45.), Christian Eriksen, Joakim Mæhle.
Sókn: Andreas Skov Olsen (Jesper Lindström 65.), Kasper Dolberg (Andreas Cornelius 65.)

Leikmenn Túnis hita upp á leikvanginum í Al Rayyan fyrir …
Leikmenn Túnis hita upp á leikvanginum í Al Rayyan fyrir leikinn í dag. AFP/Miguel Medina
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert