Silfurliðinu tókst ekki að skora

Dominik Livakovic markvörður Króata ver frá Noussair Mazraoui í einu …
Dominik Livakovic markvörður Króata ver frá Noussair Mazraoui í einu af bestu færum leiksins. AFP/Odd Andersen

Marokkó og Króatía gerðu markalaust jafntefli í fyrsta leik F-riðils heimsmeistaramóts karla í fótbolta sem fram fór í Al Rayyan í Katar í dag.

Króatar, sem léku til úrslita á síðasta heimsmeistaramóti, voru mun meira með boltann en hvort lið um sig átti aðeins tvö markskot sem hittu á mark mótherjanna.

Belgía og Kanada eru hin tvö liðin í F-riðlinum og þau eigast við klukkan 19 í kvöld.

Eftir jafnar upphafsmínútur átti Ivan Perisic hættulegt skot af 25 metra færi á 16. mínútu, rétt yfir marokkóska markið. 

Króatinn Ivan Perisic reynir að komast fram hjá Achraf Hakimi …
Króatinn Ivan Perisic reynir að komast fram hjá Achraf Hakimi bakverði Marokkó. AFP/Fadel Senna

Besta færi fyrri hálfleiks kom í byrjun uppbótartímans þegar Nikola Vlasic átti skot af markteig sem Yassine Bounou í marki Marokkó varði vel. Luka Modric átti síðan hörkuskot rétt yfir markið frá vítateigslínu rétt áður en flautað var til hálfleiks.

Króatar voru með boltann tæplega 60 prósent af fyrri hálfleiknum en Marokkó átti hins vegar fjögur markskot gegn aðeins tveimur. Skot Vlasic undir lokin var hins vegar það eina sem hitti í mark í fyrri hálfleiknum.

Vlasic gat ekki haldið áfram eftir meiðsli undir lok fyrri hálfleiks og Mario  Pasalic kom í hans stað í hálfleik hjá Króötum.

Selim Amallah fylgist með Luka Modric senda boltann í leiknum …
Selim Amallah fylgist með Luka Modric senda boltann í leiknum í dag. AFP/Ozan Kose

Marokkómenn áttu hættulega sókn á 51. mínútu þar sem Noussair Mazraoui skallaði af stuttu færi en Dominik Livakovic í marki Króata varði vel.

Í næstu sókn var hasar í markteig Marokkó eftir hornspyrnu en Sofyan Amrabat bjargaði á marklínu eftir skot frá Josko Gvardiol.

Achraf Hakimi átti þrumuskot að marki Króata af 25 metra færi á 65. mínútu og Livakovic varði vel með því að slá boltann frá.

Lið Króatíu:
Mark: Dominik Livakovic.
Vörn: Josip Juranovic, Dejan Lovren, Josko Gvardiol, Borna Sosa.
Miðja: Luka Modric, Marcelo Brozovic, Mataeo Kovacic (Lovro Majer 79.).
Sókn: Nikola Vlasic (Mario Pasalic 46.), Andrej Kramaric (Marko Livaja 71.), Ivan Perisic (Mislav Orsic 90.).

Lið Marokkó:
Mark: Yassine Bounou.
Vörn: Achraf Hakimi, Romain Saiss, Naif Aguered, Noussair Mazraoui (Yahya Allah 60.).
Miðja: Azzedine Ounahi (Abdelhamid Sabiri 81.), Selim Amallah, Sofyan Amrabat.
Sókn: Hakim Ziyech, Youssef En-Nesyri (Abd Al Razke Hamdalah 81.), Sofiane Boufal (Abde Ezzalzouli 65.).

Lið Króatíu fyrir leikinn í dag.
Lið Króatíu fyrir leikinn í dag. AFP/Ozan Kose
Séð yfir Al-Bayt leikvanginn í Al Khor fyrir leikinn í …
Séð yfir Al-Bayt leikvanginn í Al Khor fyrir leikinn í dag. AFP/Kirill Kudryavtsev
Luka Modric hitar upp fyrir leikinn í dag.
Luka Modric hitar upp fyrir leikinn í dag. AFP/Ozan Kose
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert