Messi lykilmaðurinn í sigri Argentínu

Lionel Messi fagnar marki sínu.
Lionel Messi fagnar marki sínu. AFP/Kirill Kudryavtsev

Argentína vann gífurlega mikilvægan 2:0 sigur á Mexíkó í 2. umferð C-riðilsins á heimsmeistaramóti karla í knattspyrnu í Luisail í Katar í kvöld. 

Lionel Messi kom Argentínu yfir á 64. mínútu með skoti utan teigs. Enzo Fernández tvöfaldaði svo forystu Argentínumanna á 87. mínútu er hann lagði boltann í fjær með glæsibrag.

Pólverjar eru nú með 4 stig, Argentína 3, Sádi-Arabía 3 og Mexíkó eitt stig. Í lokaumferðinni mætast Pólland og Argentína annars vegar en Sádi-Arabía og Mexíkó hinsvegar. Öll fjögur liðin geta því farið áfram.

Fyrstu 20. mínútur leiksins voru rólegar og Argentínumenn virkuðu heldur stressaðir og léku misvel á milli sín. 

Það var ekki fyrr en á 40. mínútu sem fyrsta færi leiksins kom. Þá sendi Di María háan bolta fyrir sem Lautaro Martinez skallaði yfir. Framherjinn hefði getað gert betur þar. 

Á 45. mínútu tók svo Alexis Vega hörku aukaspyrnu langt utan teigs en Emiliano Martinez kastaði sér á eftir boltanum og greip hann listilega. 

Messi fékk svo aukaspyrnu á stórhættulegum stað á 51. mínútu og tók hana að sjálfsögðu sjálfur. Spyrnan var þó afar léleg og fór lengst yfir markið. 

Á 55. mínútu lék Di María léttilega á varnarmenn Mexíkó og gaf hættulega sendingu fyrir sem Alexis MacAllister var rétt frá því að komast í en varnarmenn Mexíkó komu boltanum burt. 

Töframaðurinn Lionel Messi kom svo Argentínu yfir á 64. mínútu. Þá fékk hann boltann frá Ángel Di María fyrir utan teig, tók snertingu og lét vaða og boltinn endaði í fjærhorninu nær. 

Þrátt fyrir markið var Argentína enn hættulegri aðilinn. Mexíkóliðið var afar slakt í sókn og skapaði sér ekki færi. Á 87. mínútu tvöfaldaði svo Enzo Fernández forystu Argentínumanna.

Þá fékk hann boltann frá Lionel Messi og fíflaði varnarmenn Mexíkó upp úr skónum og lagði svo boltann í fjær, glæsilegt mark hjá varamanninum. 

Enzo Fernández fagnar marki sínu ásamt Lionel Messi og Julián …
Enzo Fernández fagnar marki sínu ásamt Lionel Messi og Julián Álvarez. AFP/Manan Vatsyayana

Leiknum lauk með 2:0 sigri Argentínu sem lék mun betur í þeim síðari en fyrri. Skiptingar Lionel Scaloni um miðjan síðari hálfleikinn gerðu sitt gagn og margfalt bættu leik liðsins. 

Lið Argentínu: (4-3-3)
Marki: Emiliano Martinez
Vörn: Gonzalo Montiel (Nahuel Molina 63.), Nicolás Otamendi, Lisandro Martinez, Marcos Acuna
Miðja: Alexis MacAllister (Exequiel Palacios 69.), Guido Rodriguez (Enzo Fernández 57.), Rodrigo De Paul
Sókn: Lionel Messi, Lautaro Martinez (Julián Álvarez 63.), Ángel Di María (Cristian Romero 69.)

Lið Mexíkó: (3-5-2)
Mark: 
Guillermo Ochoa 
Vörn: César Montes, Néstor Araujo, Héctor Moreno
Miðju: Kevin Álvarez (Raul Jiménez 66.), Héctor Herrera, Andrés Guardado (Érick Gutiérriz 42.), Luis Chávez, Jesus Gallardo, 
Sókn: Hirving Lozano (Roberto Alvarado 73.), Alexis Vega (Uriel Antuna 66.)

Lionel Messi í baráttunni við Luis Chavez.
Lionel Messi í baráttunni við Luis Chavez. AFP/Manan Vatsyayana
Emiliano Martinez og Lionel Messi syngja þjóðsöng Argentínu.
Emiliano Martinez og Lionel Messi syngja þjóðsöng Argentínu. AFP/Juan Mabromata
Stuðningsmenn Argentínu fyrir leik.
Stuðningsmenn Argentínu fyrir leik. AFP/Juan Mabromata
Guillermo Ochoa hitar upp fyrir leik kvöldsins. Hann varði víti …
Guillermo Ochoa hitar upp fyrir leik kvöldsins. Hann varði víti frá Robert Lewandowski í síðasta leik. AFP/Kirill Kudryavtsev
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert