Getið farið heim ef ykkur leiðist

Það er létt yfir Louis Van Gaal í Katar.
Það er létt yfir Louis Van Gaal í Katar. AFP/Alberto Pizzoli

Holland tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í fótbolta í Katar með 2:0-sigri á gestgjöfunum í gærkvöldi. Cody Gakpo og Frenkie de Jong skoruðu mörk Hollendinga og mætir liðið Bandaríkjunum í 16-liða úrslitum.

Þrátt fyrir að Holland hafi unnið A-riðil, án þess að tapa leik, eru hollenskir blaðamenn ekki hrifnir af leikaðferð hollenska liðsins. Þar á bæ eru kröfur á skemmtilegan fótbolta, ásamt sigrum.

Louis van Gaal, þjálfari Hollands, var spurður út í leiðinlega spilamennsku hollenska liðsins á blaðamannafundi eftir leikinn. „Ég er ekki sammála. Ef þetta er svona leiðinlegt, af hverju ferðu ekki heim?“ spurði van Gaal glettinn.

„Það eru vonbrigði að þér finnist fótboltinn okkar svona leiðinlegur, en ég er ekki sammála. Ég held allir væru frekar stoltir af því að fara áfram í næstu umferð,“ bætti hollenski þjálfarinn við.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert