Stjörnurnar hvíldar hjá Frökkum?

Kylian Mbappé og Antoine Griezmann á æfingu Frakka í gær.
Kylian Mbappé og Antoine Griezmann á æfingu Frakka í gær. AFP/Franck Fife

Samkvæmt franska fjölmiðlinum L'Equipe ætlar Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka, að hvíla lykilmenn sína, Kylian Mbappé og Antoine Griezmann, þegar þeir mæta Túnis í lokaumferð D-riðilsins á HM í Katar í dag.

Frakkar eru þegar búnir að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitunum og Mbappé er einn af fjórum markahæstu leikmönnum keppninnar til þessa með þrjú mörk í fyrstu tveimur leikjunum.

Deschamps var spurður um þetta á fréttamannafundi í gær og gaf loðin svör. „Mbappé er ekki eigingjarn, hann er liðsmaður, og hann myndi ekki kippa sér upp við það að vera hvíldur. Hann er að sjálfsögðu stjarna og afar mikilvægur leikmaður, en hann er ekki lengur 18 ára. Það er ljóst að það geta ekki allir byrjað leikinn og ég þarf að huga að mörgu," sagði Deschamps.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert