Handboltalandsliðið mætt til München

Leikmenn, þjálfarar og aðstoðarmenn íslenska landsliðsins stilltu sér upp í …
Leikmenn, þjálfarar og aðstoðarmenn íslenska landsliðsins stilltu sér upp í myndatöku á Keflavíkurflugvelli í morgun og vitanlega var keila með á myndinni. mbl.is/Ívar

Íslenska landsliðið í handknattleik karla er komið til München í Suður-Þýskalandi þar sem það hefur leik á föstudaginn á heimsmeistaramótinu með leik við Króata. Hópurinn lenti á flugvellinum í útjaðri München í hádeginu.

Fram undan er æfing hjá liðinu síðdegis í dag eftir að það hefur komið sér fyrir á hóteli og snætt málsverð. Ekki verður æft í Ólympíuhöllinni í München í dag en annað minna æfingahúsnæði verður nýtt. Æft verður á keppnisstað á morgun, eftir því sem næst verður komist.

Á ýmsu hefur gengið við undirbúninginn og breytingar áttu sér stað á hópnum nánast fram að þeim tíma sem Guðmundur Þórður Guðmundsson tilkynnti um val sitt á þeim 17 leikmönnum sem hann hefur úr að spila hér í München. M.a. heltist fyrirliðinn og reyndasti handknattleiksmaður heims um þessar mundir, Guðjón Valur Sigurðsson, úr lestinni vegna meiðsla. Einnig komu meiðsli í veg fyrir þátttöku Arons Rafn Eðvarðssonar markvarðar.

Gott hljóð var í leikmönnum og þjálfara þegar lagt var af stað frá Keflavíkurflugvelli í morgun í beinu flugi með Icelandair til München. Tilhlökkun var í mönnum fyrir leikina sem fram undan eru og ekki annað að sjá en leikmenn klæjaði í fingurna að takast á við andstæðinga sína á næstu dögum en auk Króata mæta Íslendingar Spánverjum, Bareinum, Japönum og Makedóníumönnum í riðlakeppninni sem leikin verður næstu vikuna í Ólympíuhöllinni í München.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert