„Ákaflega stoltur“

Aron Pálmarsson sækir að vörn Makedóníu í gær.
Aron Pálmarsson sækir að vörn Makedóníu í gær. AFP

„Maður hefði getað skrifað handritið að þessum leik fyrirfram,“ sagði fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik karla, Aron Pálmarsson, í samtali við Morgunblaðið eftir sigur, 24:22, á landsliði Makedóníu í lokaleiknum í B-riðli heimsmeistaramótsins í Ólympíuhöllinni í München í gærkvöldi.

Sigurinn tryggði íslenska landsliðinu sæti í milliriðlakeppni mótsins, meðal 12 bestu liðanna, en sæti í milliriðli var fyrsta markmið landsliðsins í keppninni.

„Makedóníumenn leika einstaklega agaðan leik og halda hraðanum niðri alveg eins og kostur er. Síðan leika þeir nánast undantekingarlaust með sjö í sókn. Þetta var allt samkvæmt bókinni enda fannst mér við hafa svör við þessu öllu saman,“ sagði Aron sem fór mikinn jafnt í vörn sem sókn þótt hann skoraði aðeins tvö mörk.

„Makedóníumenn áttu engin svör við varnarleik okkar. Varnarleikur okkar var stórkostlegur. Við leystum sjö manna sóknarleik þeirra nánast fullkomlega. Hreyfingin og vinnan á öllum í vörninni var mögnuð og síðan var Bjöggi æðislegur í markinu. Það tekur ofsalega á að leika manni færri í vörn allan leikinn og þar gengur margt á sem ekki er alltaf greinilegt. Fullt af smáatriðum þarf að vera í lagi til þess að varnarleikurinn gangi fullkomlega upp gegn leikaðferðum Makedóníumanna,“ sagði fyrirliðinn sem var hás í leikslok en hann hefur verið lítillega veikur síðustu daga. Veikindin komu ekki í veg fyrir að hann legði sig fram eins og allir leikmenn íslenska liðsins í leiknum.

Sjá allt um HM í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert