Bara handboltinn kemst að

Elvar Örn Jónsson.
Elvar Örn Jónsson. AFP

„Ég hef aldrei leikið áður fyrir framan tuttugu þúsund áhorfendur. Það verður vonandi skemmtileg upplifun,“ sagði Elvar Örn Jónsson, landsliðsmaður í handknattleik karla, í samtali við mbl.is. Hann verður í eldlínunni í kvöld þegar íslenska landsliðið mætir þýska landsliðinu í fyrstu umferð milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins i Lanxess-Arena í Köln.

„Þegar leikurinn hefst þá snýst allt um að skora í næstu sókn eða verjast næstu sókn andstæðingsins. Fjöldi áhorfenda hefur þá ekkert að segja. Þá kemst bara handboltinn að,“ sagði Elvar Örn sem segir að þýska liðið hafi alla kosti góðs handboltaliðs, sterka vörn, skipulagðan sóknarleik og afar góða markverði.

„Vonandi verður leikurinn jafn og skemmtilegur allan tímann. Ég hlakka til að leika þennan leik. Þetta er gríðarlega spennandi verkefni sem bíður okkar,“ sagði Elvar Örn Jónsson, Selfyssingur og landsliðsmaður í handknattleik.

Viðureign Íslands og Þýskalands hefst klukkan 19.30 í dag og verður í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert