Þarf að skora fleiri en 19 mörk

Bjarki Már Elísson.
Bjarki Már Elísson. Ljósmynd/Uros Hocevar

„Mér fannst varnarleikurinn vera góður hjá okkur en til þess að vinna Þjóðverja þarf að skora fleiri en nítján mörk,“ sagði Bjarki Már Elísson, landsliðsmaður í handknattleik í samtali við mbl.is í kvöld eftir fimm marka tap íslenska landsliðsins, 24:19, fyrir Þjóðverjum í fyrsta leik þjóðanna í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik í Köln í kvöld.

„Af hverju mörkin voru svo fá er kannski erfitt að segja til um svona stuttu eftir leik en mér fannst meðal annars okkur ekki takast að nýta breiddina eins og talað var um fyrir leikinn, það er að fá fleiri mörk úr hornunum. Eins nýttum við ekki opin færi nógu vel. Niðurstaðan er því afar svekkjandi tap,“ sagði Bjarki Már sem lék í vinstra horni íslenska liðsins í fyrri hálfleik og skoraði eitt mark.

„Við erum ekki langt frá því að fá eitthvað út úr leikjunum á móti þessum betri liðum eins og Þýskalandi og Króatíu. Ég er viss um að með aukinni reynslu eigi munurinn eftir að minnka enn meira. Við gerum okkur oft seka um klaufaleg mistök í vörninni þar sem menn sleppa andstæðingnum of seint og fá fyrir vikið óþarfa brottrekstra. Það er erfitt að vera manni færri oft í leik gegn betri liðunum. Með aukinni reynslu munum við nálgast bestu liðin fljótlega,“ sagði Bjarki Már Elísson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert