Eltingarleikur sem tapaðist í Köln

Íslenska landsliðið tapaði lokaleik sínum á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla í dag þegar liðið mætti landsliði Brasilíu. Lokatölur 32:29 eftir að jafnt var í hálfleik, 15:15. Íslenska landsliðið hafnar þar með í 11. sætinu á mótinu. Þetta er fyrsta tap íslensks handboltalandsliðs í karlaflokki fyrir Suður-Ameríkuþjóð á stórmóti.

Íslenska liðið átti á brattann að sækja frá upphafi til enda. Eftir slaka byrjun þar sem Brasilíumenn skoruðu fimm fyrstu mörkin tókst íslenska landsliðinu aldrei að komast yfir. Það var í eltingarleik allan leikinn, eltingarleik sem skilaði ekki árangri.

Upphafsmínúturnar í leiknum í dag minntu talsvert á upphafið á leik Íslands og Frakklands á sunnudaginn. Brasilíumenn skoruðu fimm fyrstu mörkin. Guðmundi Þórði Guðmundssyni landsliðsþjálfara var nóg boðið í þeirri stöðu eftir hálfa sjöundu mínútu og tók leikhlé.  Sóknarleikurinn var hægur og vart náðist skot á markið auk þess sem boltanum var gloprað á afar klaufalegan hátt skipti eftir skipti.

Ólafur Guðmundsson og Gísli Þorgeir Kristjánsson komu inn í sóknina eftir hléið í stað Hauks Þrastarsonar og Elvar Arnar Jónssonar. Einnig kom Ágúst Elí Björgvinsson í markið í stað Björgvins Páls Gústavssonar.

Bjarki Már Elísson braut loksins ísinn fyrir íslenska liðið með marki úr hraðaupphlaupi eftir rúmlega átta mínútna leik. Arnar Freyr Arnarsson bætti öðru marki við í kjölfarið áður en Brasilíumenn skoruðu sitt sjötta þegar leikurinn var rétt tíu mínútna gamall.

Markvarslan var engin. Skipti þá engu hvort Björgvin Páll eða Ágúst stóð vaktina.

Þegar hálfleikurinn var hálfnaður var forskot Brasilíumanna fjögur mörk, 10:6, eftir að þeir skoruðu eftir hraðaupphlaup. Og enn átti eftir að halla undan fæti. Mestur varð munurinn 13:8, áður en landið tók að rísa hjá íslenska liðinu. Útlitið var sannarlega bjart lengi vel.

Vörnin batnaði verulega síðustu tíu mínúturnar auk þess sem Björgvin Páll tók að verja. Með hröðum sóknum í kjölfarið tókst íslenska landsliðinu að saxa jafnt og þétt á forskot Brasilíumanna þar til Sigvaldi Björn Guðjónsson jafnaði metin í fyrsta sinn í 15:15, þegar 25 sekúndur voru til hálfleiks. Fleiri urðu mörkin ekki í hálfleiknum.

Góðar síðustu tíu mínútur hálfleiksins gáfu ákveðin fyrirheit eftir hreint hörmungarleik lengi framan af. Þann lakasta sem íslenska liðið sýndi í keppninni.

Upphafsmínútur síðari hálfleiks voru íslenska liðinu erfiðar. Brasilíumenn skoruðu tvö fyrstu mörkin og héldu forystu upp á eitt til tvö mörk um skeið. Sóknarleikur íslenska liðsins var erfiður og mistækur. Stundum var brasilíska liðinu færður boltinn á silfurfati. Eins og lengst af fyrri hálfleiks gekk uppstilltur sóknarleikur illa gegn 5/1 vörn andstæðingsins.

Arnar Freyr Arnarsson jafnaði metin, 20:20, með marki af línunni á 40 mínútu. Brasilíumenn svöruðu með þremur mörkum í röð, 23:20, áður en Elvar Örn klóraði í bakkann.

Þegar síðari hálfleikur var hálfnaður var forskot brasilíska liðsins tvö mörk, 24:22. Eltingarleikurinn var erfiður til lengdar. Enn einu sinni jafnaði íslenska liðið metin í 24:24 þegar 13 og hálf mínúta var til leiksloka. Stefán Rafn Sigurmannsson skoraði tvö mörk í röð, þá nýkominn inn á leikvöllinn í stað Bjarka Más sem ekki hafði náð sér á strik.

Þrjú brasilísk mörk fylgdu í kjölfarið og munurinn var á ný orðinn þrjú mörk, 27:24, og tíu mínútur til leiksloka. Fimm mínútur fyrir leikslok var íslenska liðið orðið fjórum mörkum undir, 30:26, og útlitið orðið svart eftir slakan leik. Vítaskot Stefáns Rafns í stöngina jók ekki á bjartsýnina þegar fjórar mínútur voru til leiksloka.

Brasilíumenn náðu fimm marka forskoti og sigldu öruggum og sanngjörnum sigri í höfn, sínum fimmta  á mótinu í átta leikjum og sjöunda sæti á mótinu er sennilega raunin.

Íslenska landsliðiðið lék sinn slakasta leik á mótinu, ekki síst í sókninni auk þess sem markvarslan var ekki viðundandi nema á stuttum kafla undir lok fyrri hálfleiks.

Brasilía 32:29 Ísland opna loka
60. mín. Leonardo Vial Tercariol (Brasilía) varði skot
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert