Norðmenn verða að bíða – Fyrsta tap Frakka í 6 ár

Magnus Jondal fagnar einu af sjö mörkum sínum fyrir Norðmenn …
Magnus Jondal fagnar einu af sjö mörkum sínum fyrir Norðmenn í kvöld. AFP

Norðmenn unnu öruggan sigur gegn Ungverjum í lokaumferð milliriðils 2 á heimsmeistaramótinu í handbolta í kvöld, heimsmeistarar Frakka töpuðu sínum fyrsta leik á HM síðan 2013 þegar þeir lágu fyrir Króötum í milliriðli 1.

Norðmenn fögnuðu níu marka sigri 35:26. Þeir voru yfir eftir fyrri hálfleikinn 16:13 og þeir bættu við forskotið í seinni hálfleik. Norðmenn verða að bíða úrslitanna í leik Dana og Svía sem eigast við í kvöld. Fari Danir með sigur af hólmi fara þeir í undanúrslitin ásamt Norðmönnum en vinni Svíar með meira en fjögurra marka mun fara þeir áfram ásamt Norðmönnum en ef Svíar vinna með tveimur mörkum ræður markamunurinn á milli Svía og Norðmanna hvor þjóðin fer í undanúrslitin. Tap Ungverja gerði að verkum að þeir enda í fimmta sæti og komast ekki í umspil um sæti á Ólympíuleikunum.

Mörk Noregs: Magnus Rod 7, Magnus Jondal 7 Bjarte Myrhol 6, Kristian Bjornsen 5, Sander Sagosen 4, Petter Overby 2, Magnus Gullerud 2, Goran Johannessen 2.

Mörk Ungverjalands: Zsolt Balogh 11, Mate Lekai 5, Bence Banhidi 4, Richard Bodó 4, Bendeguz Boka 1, Laszlo Nagy 1.

Króatar fagna sigrinum gegn Frökkum í kvöld.
Króatar fagna sigrinum gegn Frökkum í kvöld. AFP

Mikilvægur sigur Króata

Króatar gulltryggðu sér farseðilinn í umspili um sæti á Ólympíuleikunum með sigri gegn heimsmeisturum Frakka 23:20. Tap hjá Króötum hefði þýtt að þeir hefðu hafnað í fimmta sætinu í riðlinum en sigurinn gerði það að verkum að þeir enda í þriðja sæti og spila um 5.-6. sæti á mótinu.

Staðan var jöfn í hálfleik 11:11 en Króatar reyndust sterkari á lokasprettinum. Frakkar og Þjóðverjar eru með 7 stig í efsta sæti en Þjóðverjar mæta Spánverjum í kvöld og geta tryggt sér efsta sætið. Frakkar töpuðu síðast leik í úrslitakeppni HM árið 2013 þegar þeir töpuðu fyrir Þjóðverjum.

Mörk Frakklands: Melvyn Richardson 5, Timothey N’Guessan 3, Luc Abalo 3, Ludovic Fabregas 2, Nedim Remili 2, Mathieu Grebille 2, Romain Lagarde 1, Dika Mem 1, Valentin Porte 1.

Mörk Króatíu: Zlatko Horvat 7, David Mandic 4, Jakov Vrankovic 3, Zeljko Musa 2, Manuel Strlek 2, Igor Karacic 2, Marin Sipic 1, Ivan Vida 1, Domagoj Duvnjak 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert