Fimmtán marka stórsigur Íslands

Ísland valtaði yfir Alsír, 39:24, á HM karla í handbolta í Egyptalandi í kvöld og fór langt með að tryggja sér annað sæti F-riðils. Sigurinn var sá fyrsti hjá íslenska liðinu á mótinu eftir tap fyrir Portúgal í fyrsta leik.

Ísland er nú í öðru sæti riðilsins með tvö stig en Portúgal er í efsta sæti með fjögur. Alsír er með tvö stig og Marokkó ekkert. Íslenska liðið þyrfti að tapa fyrir Marokkó með þrjátíu marka mun eftir þessi úrslit til að missa af sæti í milliriðli, en þarf að fá stig út úr þeim leik á mánudagskvöldið til að vera öruggt með að fara með tvö stig með sér í milliriðil.

Í stöðunni 3:3 á sjöttu mínútu tók íslenska liðið við sér og var staðan 10:5 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Íslenska liðið hélt áfram að bæta í og munaði að lokum tólf mörkum á liðunum í hálfleik, 22:10.

Bjarki Már Elísson skoraði níu mörk í hálfleiknum og Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ólafur Andrés Guðmundsson léku einnig vel, ásamt því að Viggó Kristjánsson átti góðar rispur. Þá varði Björgvin Páll Gústavsson átta skot í hálfleiknum og fékk aðeins á sig tíu mörk. Björgvin var ekki með í fyrsta leik gegn Portúgal og var greinilega staðráðinn í að nýta tækifærið vel.

Munurinn varð 13 mörk í fyrsta skipti þegar seinni hálfleikur var hálfnaður og úrslitin löngu ráðin. Alexander Petersson lét af sér kveða í seinni hálfleik og spilaði vel bæði í vörn og sókn. Ísland hélt áfram að bæta í út leikinn og vann afar sannfærandi stórsigur.

Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu með 12 mörk, Ólafur Andrés Guðmundsson gerði sex mörk og Alexander Petersson skoraði fjögur. Björgvin Páll Gústavsson varði 15 skot í íslenska markinu og lék afar vel.

Ísland mætir Marokkó í síðasta leik riðilsins á mánudaginn kemur en Marokkó er án stiga eftir töp fyrir Portúgal og Alsír. Með sigri gulltryggir íslenska liðið sér annað sæti riðilsins og tvö stig í milliriðil 3.

Alsír 24:39 Ísland opna loka
60. mín. Sigvaldi Björn Guðjónsson (Ísland) skoraði mark Flott sending hjá Magnúsi Óla. Kvittar fyrir slöku sendinguna áðan.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert