Ísland með tvö stig í milliriðil eftir skrautlegan leik

Ísland gulltryggði annað sæti F-riðils á HM karla í handbolta Egyptalandi með 31:23-sigri á Marokkó í lokaleik riðilsins í kvöld. Portúgal vann riðilinn með sex stig, Ísland hafnaði í öðru sæti með fjögur, Alsír í þriðja með tvö og Marokkó rak lestina án stiga.

Ísland mætir Sviss, Noregi og Frakklandi í milliriðli þrjú og er fyrsti leikur gegn Sviss á miðvikudaginn kemur. Ísland tekur tvö stig með sér í riðilinn.

Jafnræði var með liðunum á upphafsmínútunum en Marokkó var skrefinu á undan og var staðan 5:4, Afríkuþjóðinni í vil þegar tíu mínútur voru liðnar á fyrri hálfleik. Þá fékk Mehdi Alaoui beint rautt spjald fyrir ljótt brot á Elvari Erni Jónssyni.

Íslenska liðið virtist eflast við það og tíu mínútum síðar var staðan orðin 11:7, Íslandi í vil. Ísland var áfram með undirtökin út hálfleikinn og voru hálfleikstölur 15:10.

Viggó Kristjánsson hélt uppi sóknarleik Íslands framan af og skoraði fimm af ellefu fyrstu mörkum liðsins. Ólafur Guðmundsson tók við af honum seinni hluta hálfleiksins og skoraði þrjú síðustu mörk Íslands í hálfleiknum. Þá var Björgvin Páll Gústavsson góður í markinu og varði átta skot.

Ísland var áfram með undirtökin í seinni hálfleik en tókst illa að slíta Marokkóana almennilega frá sér og var munurinn þegar seinni hálfleikur var hálfnaður enn þá fimm mörk, 23:18. Amine Harchaoui fékk annað rauða spjald Marokkó skömmu síðar þegar hann negldi Gísla Þorgeir Kristjánsson niður. Sem betur fer fyrir Gísla meiddist hann ekki illa, frekar en Elvar í fyrri hálfleik.

Örfáum mínútum síðar fékk Hicham Hakimi þriðja rauða spjaldið hjá Marokkó fyrir hættulegt brot á Viggó, sem meiddist sem betur fer ekki illa en Hakimi ýtti Viggó þegar íslenska skyttan var hátt í loftinu. Ísland svaraði með fínum handbolta og náði sjö marka forskoti í fyrsta skipti þegar tíu mínútur voru eftir, 26:19 og ógnaði Marokkó ekki forskoti Íslands eftir það.

Viggó Kristjánsson og Ólafur Andrés Guðmundsson voru markahæstir í íslenska liðinu með sex mörk, Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði fimm og Bjarki Már Elísson gerði fjögur. Björgvin Páll Gústavsson varði fjórtán skot í íslenska markinu og þar af eitt víti. 

Ísland 31:23 Marokkó opna loka
60. mín. Elvar Örn Jónsson (Ísland) skoraði mark Negla fyrir utan. Huggulegt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert