Hef varla séð annað eins

Alexander Petersson fékk beint rautt spjald í leiknum. Sigvaldi er …
Alexander Petersson fékk beint rautt spjald í leiknum. Sigvaldi er lengst til vinstri á myndinni. AFP

Sigvaldi Björn Guðjónsson var skiljanlega svekktur þegar hann ræddi við mbl.is eftir 18:20-tap fyrir Sviss í fyrsta leik í milliriðli HM karla í handbolta í Egyptalandi í dag. Hornamaðurinn var ekki hrifinn af sóknarleik íslenska liðsins. 

„Þetta var erfiður leikur, sérstaklega í sókninni þar sem við skorum 18 mörk sem er alls ekki nógu gott. Það var hundleiðinlegt að klúðra öllum þessum færum. Við fórum með ótrúlega mikið af dauðafærum og ég hef varla séð aðra eins markvörslu. Hann var að verja allt,“ sagði Sigvaldi.

Hann er svekktur með að góð vörn og markvarsla hafi ekki skilað íslenska liðinu betri úrslitum. 

„Vörnin var glæsileg og Bjöggi var stórkostlegur og við vorum að spila leikinn eins og við vildum í vörninni. Mér fannst sóknin okkar stundum deyja þegar fyrsta árás gekk ekki upp og það var vesen að ná upp flæði. Svo komu tapaðir boltar og þá fór að koma meira stress í sóknina.

Við náðum ekki að opna vörnina nægilega mikið og svo voru þeir fljótir til baka og komu í veg fyrir hraðaupphlaupin hjá okkur. Það er eitthvað sem við þurfum að bæta því við þurfum þessi auðveldu mörk.“

Skil ekki af hverju við erum ekki betri

Ísland komst í 17:16 þegar fimm mínútur voru til leiksloka en lokakaflinn reyndist erfiður. „Það er margt sem gerist á þessum lokakafla. Ég missi af frákasti og við náum ekki að komast tveimur mörkum yfir. Þetta eru smáatriði sem við þurfum að laga og það er mjög vont að skora ekki eitt einasta mark úr hraðaupphlaupi. Þeir voru að keyra á sama hóp allan leikinn og hafa gert allt mótið og ég skil ekki af hverju við vorum ekki betri í lokin.“

Ísland þarf að vinna afar sterk lið Frakka og Norðmanna til að eiga einhvern möguleika á að fara í átta liða úrslit. „Við gerum allt sem við getum til að vinna og við gefum allt í þetta. Við verðum að bæta sóknarleikinn. Það eru tveir leikir eftir núna; Frakkland og Noregur og við erum litla liðið og ætlum að spila svolítið frjálst,“ sagði Sigvaldi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert