Ungverjar og Spánverjar áfram - Argentína skellti Króatíu

Ungverjar fagna í sigrinum gegn Póllandi í dag.
Ungverjar fagna í sigrinum gegn Póllandi í dag. AFP

Ungverjaland vann góðan 30:26 sigur á Pólverjum í milliriðli eitt á heimsmeistaramótinu í handknattleik í Egyptalandi í dag. Með sigrinum tryggðu Ungverjar sér sæti í átta liða úrslitum keppninnar og tryggðu sömuleiðis Spánverjum sæti í átta liða úrslitunum.

Ungverjar höfðu undirtökin allan leikinn og voru sex mörkum yfir í hálfleik 16:10. Mest náði liðið átta marka forystu í síðari hálfleik og sigurinn því aldrei í hættu. Góður 30:26 sigur að lokum staðreynd.

Ungverjar eru efstir í riðlinum með 8 stig eftir fjóra leiki og Spánverjar eru í öðru sæti með 7 stig. Hvorki Pólverjar né Þjóðverjar geta náð þeim en Ungverjar og Spánverjar berjast nú um hvort liðið endar í efsta sæti milliriðilsins.

Pólland: Szymon Sicko 5, Michal Olejniczak 4, Przemyslaw Krajewski 4, Tomasz Gebala 4, Arkadiusz Moryto 3, Maciej Gebala 3, Maciej Pilitowski 1, Rafal Przybylski 1, Patryk Walczak 1.

Ungverjaland: Mate Lekai 8, Dominik Mathe 6, Miklos Rosta 4, Pedro Rodriguez Alvarez 3, Bence Banhidi 3, Bendeguz Boka 2, Zoltan Szita 2, Richard Bodo 2.

Argentínumenn skelltu Króötum

Argentína vann frábæran 23:19 sigur á Króötum í milliriðli tvö og eru þar með búnir að opna riðilinn upp á gátt.

Argentínumenn byrjuðu leikinn af gífurlegum krafti og voru komnir í 7:2 snemma leiks. Eftir það unnu Króatar sig inn í leikinn og náðu jafnt og þétt að minnka muninn og að lokum jafna metin í 12:12.

Þannig var staðan í hálfleik og komust Króatar yfir í byrjun síðari hálfleiks. Eftir það náðu Argentínumenn yfirhöndinni að nýju og skoruðu næstu þrjú mörk, 15:13. Króatar náðu að minnka muninn niður í eitt mark, 16:15, en nær komust þeir ekki.

Argentínumenn náðu aftur mest fimm marka forystu í 22:17 og unnu að lokum gífurlega sterkan sigur 23:19 sigur.

Sigurinn fleytir Argentínu í annað sæti milliriðils tvö. Argentínumenn eru með sex stig, Króatar með fimm stig og Katar með fjögur stig. Öll þrjú liðin geta enn komist í átta liða úrslit keppninnar.

Argentína: Federico Pizarro 4, Federico Gaston Fernandez 3, Santiago Baronetto 3, Sebastian Alejandro Simonet 3, Diego Simonet 2, Ignacio Pizarro 2, Lucas Dario Moscariello 1,Gonzalo Matias Carou 1, Pedro Martinez Cami 1, Gaston Alberto Mourino 1, Leonel Carlos Sergio 1, Nicolas Bonanno 1.

Króatía: Ivan Cupic 7, Luka Sebetic 3, Marko Mamic 3, David Mandic 2, Domagoj Duvnjak 1, Marin Sipic 1, Halil Jaganjac 1, Igor Karacic 1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert