Með því besta sem maður hefur upplifað

Þorgerður Katrín með eiginmanni sínum og fyrrverandi landsliðsmanninum Kristjáni Arasyni …
Þorgerður Katrín með eiginmanni sínum og fyrrverandi landsliðsmanninum Kristjáni Arasyni í Kristianstad í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er magnað,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar og stuðningskona íslenska landsliðsins í handbolta, þegar mbl.is ræddi við hana fyrir leik Íslands og Ungverjalands á HM karla í handbolta í Kristianstad í kvöld.

Hún var mætt á stuðningsmannasvæði Íslendinga fyrir leik, þar sem var fullt út af dyrum og gríðarleg stemning.

„Eftir margar ferðir á Evrópu- og heimsmeistaramót þá er þetta með því besta sem maður hefur upplifað. Það er svo mikil stemning og gaman að sjá fólk á öllum aldri, ekki síst unga fólkið. Þetta er æðislegt og vonandi fyrirheit fyrir það sem koma skal á vellinum,“ sagði hún.

Stemningin á fyrsta leik liðsins gegn Portúgal var mögnuð og má búast við öðru eins í kvöld, ef ekki meira. „Stemningin þar var stórkostleg og hvernig fólk gaf sig í söng og hvatti allan tímann. Fyrir vikið hættu strákarnir aldrei.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er stolt af syninum.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er stolt af syninum.

Þorgerður var eilítið stressuð fyrir leikinn, enda andstæðingurinn erfiður og mikið undir.

„Taugarnar eru ekki sérstakar,“ viðurkenndi Þorgerður. „Ég er mjög stressuð, en við erum með frábært lið. Við eigum að taka Ungverjana.

Ég hitti þá í dag fyrir tilviljun og ég leit bara upp, því þeir eru stórir og stæðir. Þeir eru með geggjaða línumenn og sem fyrrum línumaður er unun að horfa á þá spila,“ sagði hún.

Þrátt fyrir það er hún líka bjartsýn á möguleika Íslands. „Ég er klárlega bjartsýn, því Ísland er líka með æðislegt lið, góða breidd og æðislegan þjálfara.“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mætti einnig á fyrsta leikinn.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir mætti einnig á fyrsta leikinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorgerður er móðir Gísla Þorgeirs Kristjánssonar, lykilmanns í íslenska liðinu. Hann hefur verið magnaður fyrir Magdeburg í Þýskalandi að undanförnu og er einn besti leikmaður íslenska liðsins. Sú vegferð hefur ekki verið áfallalaus, því Gísli glímdi mikið við meiðsli á fyrstu árum ferilsins.

„Ég er óendanlega þakklát mörgum góðum mönnum. Hann hættir aldrei. Það hefðu margir lotið í gras fyrr, en hann gerði það ekki. Það segir ýmislegt um hans karakter. Hann er líka búinn að vera með frábært fólk í kringum sig, sjúkraþjálfara, lækni og fleiri. Þetta helst allt í hendur og það er ekki einhver einn sem getur allt, en ef við erum saman í þessu, getum við gert meira,“ sagði Þorgerður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert