Óhressir með viðbrögð íslensku leikmannanna

Bjarki Már Elísson og Aron Pálmarsson eftir leikinn í gærkvöld.
Bjarki Már Elísson og Aron Pálmarsson eftir leikinn í gærkvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sænskir fréttamenn voru ekki sáttir við viðbrögð íslensku landsliðsmannanna í handknattleik eftir ósigurinn gegn Ungverjum á heimsmeistaramótinu í Kristianstad í gærkvöld.

Kristianstadtsbladet, staðarblað borgarinnar, hefur fjallað gríðarlega mikið um íslenska liðið og í aðdraganda mótsins var stærsti hlutinn af umfjöllun þess um heimsmeistaramótið helgaður liði Íslands og hinum fjölmörgu og líflegu stuðningsmönnum þess sem hafa sett svip á Kristianstad á fyrstu dögum mótsins.

Robin Nilsson blaðamaður Kristianstadtsbladet sagði hinsvegar farir sínar ekki sléttar þegar hann freistaði þess að fá viðtöl við Bjarka Má Elísson og Aron Pálmarsson eftir tapið gegn Ungverjum í gærkvöld.

„Bjarki Már Elísson fór í skylduviðtölin við sjónvarpsstöðvarnar en eftir að hafa litið snögglega yfir afganginn af fréttamönnunum braut hann reglur IHF og fór aftur inn í búningsklefann án þess að fara í gegnum fréttamannasvæðið.

„Varstu búinn að panta viðtal?" spurði fjölmiðlafulltrúi Íslands þegar ég spurði hvort Bjarki kæmi aftur út. Rétt eins og maður þurfi að bóka viðtal við leikmann til þess að fá hann í viðtal eftir leik, eins og er í  tísku í fótboltanum.

Aron Pálmarsson horfði vissulega í augun á mér þegar ég bað hann um tveggja mínútna spjall á ensku en svo sneri hann á hæl og fór án þess að segja orð.

Það er gaman þegar allt gengur vel og ekki þarf að tala um neitt annað en frábæra stemningu en það er ljóst að íslenska landsliðið er ekki alltaf eins auðmjúkt og það er sagt vera," skrifaði Nilsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert