Portúgal skellti Ungverjum og vann riðilinn

Hinn 17 ára gamli Francisco Costa skorar fyrir Portúgali gegn …
Hinn 17 ára gamli Francisco Costa skorar fyrir Portúgali gegn Ungverjum í kvöld. AFP/Johan Nilsson

Portúgalar gerðu sér lítið fyrir og unnu góðan sigur á Ungverjum í lokaleik D-riðils heimsmeistaramóts karla í handknattleik í Kristianstad í Svíþjóð í kvöld, 27:20.

Portúgal, Ísland og Ungverjaland urðu þar með öll jöfn með 4 stig hvert í riðlinum. Stórsigur Portúgala þýðir hinsvegar að þeir vinna riðilinn, Ísland endar í öðru sæti en Ungverjaland í þriðja sæti.

Ef Portúgal hefði unnið leikinn með einu til sex mörkum hefði það verið Ísland sem hefði unnið riðilinn.

Liðin þrjú fara þar með öll með tvö stig með sér í milliriðilinn en þar verða líka Svíþjóð með 4 stig, Brasilía með 2 stig og Grænhöfðaeyjar sem eru án stiga.

Portúgalar byrjuðu leikinn frábærlega og náðu fljótlega sjö marka forskoti, 11:4, og í hálfleik stóð 16:9. Þeir juku forskotið í níu mörk þegar leið á leikinn.

Þetta þýðir að í fyrstu umferð milliriðilsins á miðvikudag mætast þessi lið:

Ísland - Grænhöfðaeyjar
Portúgal - Brasilía
Svíþjóð - Ungverjaland

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert