Ísland undir í tæpar fimm mínútur á HM

Aron Pálmarsson og félagar í íslenska landsliðinu hafa lítið lent …
Aron Pálmarsson og félagar í íslenska landsliðinu hafa lítið lent undir í Svíþjóð. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska karlalandsliðið í handbolta þurfti lítið að elta í leikjunum þremur sem það spilaði í D-riðli á HM, þar sem liðið var aðeins undir í samtals fjórar mínútur og 39 sekúndur í riðlinum.

Því miður fyrir íslenska liðið voru 4 mínútur og 19 sekúndur af þeim undir lokin í tapinu gegn Ungverjum, sem reyndist dýrkeypt, eftir að Ísland var yfir nánast allan leikinn.

Ísland lenti aldrei undir í fjögurra marka sigrinum gegn Portúgal í fyrsta leik, en fékk á sig fyrsta mark leiksins gegn bæði Ungverjalandi og Suður-Kóreu.

Í báðum tilvikum var íslenska liðið eldsnöggt að svara og ná undirtökunum. Liðið hélt þeim undirtökum allt til loka gegn Suður-Kóreu, en ekki gegn Ungverjalandi.

Ísland var undir í níu sekúndur gegn Suður-Kóreu í upphafi leiks og ellefu sekúndur gegn Ungverjalandi, áður en Ungverjarnir tóku síðan fram úr í lokin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert