Aron: Okkur þykir ekkert smá vænt um þetta

Aron glaðbeittur á hóteli landsliðsins í gær.
Aron glaðbeittur á hóteli landsliðsins í gær. mbl.is/Kristinn Magnússon

Landsliðsfyrirliðinn Aron Pálmarsson lék ekki með íslenska liðinu er það tapaði fyrir Svíþjóð í milliriðli II á HM í Gautaborg á föstudag, þar sem hann meiddist skömmu fyrir leikinn. Var um áfall fyrir Aron að ræða, því hann var hve spenntastur fyrir leik gegn Svíþjóð á útivelli.

„Það hefði verið þessi, ef ég hefði fengið að velja einn leik á þessu móti. Ég var uppi í stúku fyrir aftan bekkinn og það var drulluerfitt. Það er alltaf erfitt þegar maður getur ekki verið í búning og skóm og hjálpað liðinu á vellinum.

Aron Pálmarsson meiddist í leiknum við Grænhöfðaeyjar.
Aron Pálmarsson meiddist í leiknum við Grænhöfðaeyjar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Maður hvatti félagana áfram, en það er hræðilegt að geta ekki hjálpað liðinu. Það var eiginlega enn verra að upplifa þetta í höllinni. Ef maður er algjörlega sjálfselskur, þá hefði maður viljað vera uppi á hóteli, en maður er hluti af liðinu.“

Íslensku stuðningsmennirnir voru stórkostlegir í leiknum og gáfu mun fleiri Svíum lítið eftir. Aron er þakklátur fyrir stuðninginn sem Íslendingar hafa gefið liðinu í Svíþjóð.

„Svo þurfti ég bara að setjast niður og vona það besta. Það er ógeðslega erfitt. Sérstaklega með þennan fáránlega stuðning, sem við erum þakklátir fyrir. Þetta er einstakt og fólk er að furða sig á þessu. Okkur þykkir ekkert smá vænt um þetta. Að heyra um 4.000 manns syngja þjóðsönginn er alltaf jafn dásamlegt,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert