Esja á toppinn en SA er með völdin

Barist í leik Bjarnarins og Esju.
Barist í leik Bjarnarins og Esju. mbl.is/Hari

Íslandsmeistarar Esju endurheimtu toppsæti Hertz-deildar karla í íshokkíi í kvöld þegar liðið vann sigur á Birninum, 4:2. Björninn átti fyrir leikinn ekki möguleika á öðru af tveimur efstu sætunum sem gefa þátttökurétt í úrslitakeppninni.

Markalaust var eftir fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta skoraði Aron Knútsson fyrir Esju. Hann var aftur á ferðinni í þriðja leikhluta ásamt Jan Semorad og staðan því orðin 3:0 fyrir Esju, áður en Úlfar Jón Andrésson og Andri Helgason skoruðu fyrir Björninn og hleyptu spennu í leikinn.

Andrej Mrazik innsiglaði hins vegar 4:2-sigur Esju þremur mínútum fyrir leikslok og þar við sat. Esja er á toppnum með 47 stig, tveimur stigum fyrir ofan Skautafélag Akureyrar, en norðanmenn eiga hins vegar tvo leiki inni á Esju.

SA á fimm leiki eftir í deildinni en Esja þrjá, en þar af eiga liðin eftir að mætast tvívegis innbyrðis í deildinni áður en úrslitakeppnin hefst. Það verður því hörð barátta um efsta sætið og heimaleikjaréttinn, en SA getur þar með treyst á sig á meðan Esja þarf að treysta því að SA misstígi sig.

Mörk/stoðsendingar Esju í kvöld:

Aron Knútsson 2/0
Jan Semorad 1/0
Andrej Mrazik 1/0
Hjalti Jóhannsson 0/2
Andri Sverrisson 0/1
Jón Óskarsson 0/1
Petr Kubos 0/1
Robbie Sigurðsson 0/1

Mörk/stoðsendingar Bjarnarins í kvöld:

Andri Helgason 1/1
Úlfar Andrésson 1/0

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert