Craion hafði betur gegn Hauki

Michael Craion og Haukur Helgi Pálsson í baráttu með KR …
Michael Craion og Haukur Helgi Pálsson í baráttu með KR og Njarðvík. Þeir mættust í Frakklandi í kvöld. mbl.is/Styrmir Kári

Stórleikur Hauks Helga Pálssonar fyrir Cholet kom ekki í veg fyrir að lið hans tapaði mjög óvænt fyrir C-deildarliðinu Saint Vallier, 78:76, í gríðarlega spennandi leik í 32ja liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar í körfuknattleik í kvöld.

Saint Vallier, með fyrrverandi KR-inginn og þrefalda Íslandsmeistarann Michael Craion í stóru hlutverki, náði þrettán stiga forystu í fjórða leikhluta og var fimm stigum yfir þegar 45 sekúndur voru eftir, 75:70. Haukur skoraði tvær 3ja stiga körfur á lokasprettinum en það var ekki nóg og Craion innsiglaði sigur C-deildarliðsins úr vítaskoti þegar 2 sekúndur voru eftir af leiknum – og komst svo inn í sendingu Hauks strax í kjölfarið.

Haukur var langatkvæðamestur í liði Cholet og skoraði 22 stig og átti auk þess 3 stoðsendingar og tók 4 fráköst en hann spilaði í 26 mínútur. Craion var stigahæstur heimamanna með 14 stig og tók 5 fráköst en hann lék líka í 26 mínútur. Úrslitin eru geysilega óvænt því Cholet er í áttunda sæti 1. deildarinnar, þeirrar efstu í Frakklandi.

Martin Hermannsson og félagar í Chalons-Reims, sem eru í 13. sæti af 18 liðum 1. deildar, komust hins vegar vandræðalítið áfram þegar þeir unnu B-deildarliðið Roanne, 89:70, á útivelli. Martin, sem lék aðeins í 17 mínútur að þessu sinni, skoraði 6 stig og átti 5 stoðsendingar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert