Mikið búið að reyna á alla hjá félaginu

Jóhanna Björk Sveinsdóttir er lykilmaður hjá Skallagrími.
Jóhanna Björk Sveinsdóttir er lykilmaður hjá Skallagrími. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við reynum að líta á þetta sem nýtt upphaf og ætlum að finna gleðina í körfuboltanum aftur,“ segir Jóhanna Björk Sveinsdóttir, leikmaður körfuboltaliðs Skallagríms, en Morgunblaðið beinir í dag sjónum sínum að þessu núverandi flaggskipi íþróttalífs í Borgarnesi.

Mikið hefur gengið á í herbúðum Skallagríms í vetur og segja má að liðið hafi eiginlega liðast í sundur í beinni sjónvarpsútsendingu í undanúrslitum bikarkeppninnar í Laugardalshöll fyrr í mánuðinum. Í hverju leikhléi virtist sem ósætti á milli þjálfara og leikmanna væri afar mikið og skömmu eftir leikinn, sem tapaðist gegn Njarðvík, var spænska þjálfaranum Ricardo Gonzáles sagt upp. Ari Gunnarsson, sem stýrði Val á síðustu leiktíð, var ráðinn í hans stað. En hvað hafði eiginlega gengið á?

„Það var búið að ganga ýmislegt á eins og sást bara þarna í beinni útsendingu. Það höfðu verið erfiðleikar, samskiptaerfiðleikar, bæði milli þjálfara og stjórnar, og þjálfara og leikmanna. Þetta var bara allur pakkinn og það var mikið búið að reyna á alla,“ segir Jóhanna. En hvað var það helst sem leikmenn voru óánægðir með hjá þjálfaranum?

„Ég hugsa að það hafi aðallega verið mikil neikvæðni. Hann hafði líka sína kosti, það má ekki gleyma því. En við misstum svolítið trúna, höfðum byrjað undirbúning seint og vorum fáar í hópnum. Við erum rétt núna að ná 10 saman á æfingum. Hann var því sjálfur í erfiðri stöðu, og ekki allt búið að ganga upp sem hann bjóst við. Það er ekki bara hægt að koma öllu á hann, en neikvæðnin skein svolítið í gegn og hann var fljótur oft að koma sökinni á aðra,“ segir Jóhanna.

Ítarlega umfjöllun um kvennalið Skallagríms í körfuknattleik má finna í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert