„Það var ekki mikið sem skildi liðin að. Við vorum hins vegar ekki nógu góðir til að vinna í dag, það er ekkert flóknara en það, við hittum ekki nógu vel," sagði Ragnar Örn Bragason, leikmaður Keflavíkur eftir 73:70-tap gegn Haukum í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld.
Keflavík var undir nánast allan leikinn en fékk tækifæri til að jafna í bálokin er Ágúst Orrason fékk gott færi fyrir utan þriggja stiga línuna. Það geigaði hins vegar.
„Við hefðum getað fengið tvö betri skot til að jafna leikinn, en það er ekkert við því að segja. Við lentum aldrei það mikið undir og þetta var jafn leikur allan tímann. Við náum að setja nokkur skot í lokin og gera þetta að virkilega spennandi leik en því miður féll þetta ekki okkar megin í dag."
Ragnar er ánægðari með leikinn í dag en gegn Grindavík í síðustu umferð, þar sem Keflavík fékk skell.
„Það er allt betra en síðasti leikur. Þetta er vonandi skref í rétta átt, en við verðum að gera enn betur til að vinna Þór Þorlákshöfn á útivelli í næstu umferð. Það er mikilvægur leikur fyrir okkur."
Hörður Axel Vilhjálmsson var besti maður leiksins í dag og hefur Ragnar trú á að Keflvíkingar geti snúið slöku gengi sínu við.
„Hann er geggjaður leikmaður sem er að komast meira og meira inn í þetta. Ég hef fulla trú á að við munum gera gott mót þó við séum ekki í spes málum núna," sagði Ragnar að lokum.