„Þessi stingur virkilega“

Guðmundur Jónsson.
Guðmundur Jónsson. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Guðmundur Jónsson, hinn leikreyndi leikmaður Keflavíkur, sagðist í samtali við mbl.is í Keflavík í kvöld aldrei á sínum ferli hafa fengið á sig sigurkörfu í líkingu við þá sem Kári Jónsson skoraði fyrir Hauka í kvöld, nánast yfir allan völlinn um leið og lokaflautið gall. 

„Þessi (karfa) stingur virkilega og þau verða varla sárari töpin. En nú er bara næsti leikur og áfram gakk,“ sagði Guðmundur en Haukar unnu 85:82 og eru 2:0 yfir í rimmu liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildarinnar. 

Keflvíkingar höfðu forystu nánast allan leikinn í kvöld sem gerir tapið enn súrara fyrir þá. Haukar voru aðeins tvívegis yfir í leiknum. Annars vegar 85:82 og hins vegar 79:78 og þá í örfáar sekúndur. Keflavík var yfir 66:51 fyrir síðasta leikhlutann en það forskot var orðið að eins stig forskoti eftir aðeins fimm mínútur í síðasta leikhlutanum. Sá kafli reyndist Keflvíkingum dýr. 

„Þá fóru Kári, Haukur og Jones að setja skotin niður og við gáfum þeim þessi skotfæri. Þetta eru einu mennirnir í Haukaliðinu sem eru góðir skotmenn og þeir geta sett stór skot niður. Við höfðum lokað virkilega vel á þá fyrstu þrjá leikhlutana en við fórum að slaka á og gefa þeim skotfæri. Það má ekki á móti Haukum og hvað þá í svona leik. Þegar þeir eru komnir á skrið er erfitt að stoppa þá,“ sagði Guðmundur sem lék virkilega vel bæði í vörn og sókn. Strax í upphafi leiks sást að hann var mjög vel stemmdur.

„Þegar ég fer í leiki þá finnst mér við alltaf geta unnið. Ég fer aldrei í leiki hræddur um að ég muni tapa. Það kemur ekki til greina. Í úrslitkeppninni er maður öðruvísi gíraður en í deilakeppninni. Þótt maður sé búinn að vera í þessu síðan maður var gutti þá kemur alltaf þessi fiðringur með úrslitakeppninni. Maður er í þessu til að spila þessa leiki. Ég elska þetta umhverfi. Smá hörku og slágsmál en mér finnst að dómararnir mættu leyfa meira,“ sagði Guðmundur Jónsson við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert