Hafði fulla orku í seinni hálfleik

Deildameistarar Hauka komust í 2:0 í rimmunni gegn Keflavík í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik í kvöld. Segja má að Haukar hafi stolið sigri í öðrum leiknum í Keflavík í kvöld 85:82 en það var í annað sinn í leiknum sem Hafnfirðingar voru yfir.

„Já já en liðið sýndi geggjaðan karakter með því að komast inn í leikinn,“ sagði Emil Barja fyrirliði Hauka í samtali við mbl.is í Keflavík í kvöld. Keflavík var yfir 66:51 fyrir síðasta leikhlutann en á fyrstu fimm mínútum leikhlutans tókst Haukum að naga forskotið niður í eitt stig. 

„Keflvíkingar spiluðu stíft allan leikinn og börðu á okkur. Ég er því mjög ánægður með hvernig við komum til baka og náðum að þétta okkur sem lið. Við létum síðan Kára hafa boltann undir lokin og þá koma sigrarnir,“ sagði Emil en Kári Jónsson gerði 6 stig á síðustu þremur sekúndum leiksins. Gerði sigurkörfuna með skoti frá eigin vítateig. 

Á meðan illa gekk hjá Haukum í þriðja leikhluta hélt Emil áfram að berjast og gekk á undan með góðu fordæmi. Tókst honum að berja sína menn áfram. 

„Við erum með mikla breidd í þessu liði. Ég hafði hvílt mikið í fyrri hálfleik vegna villuvandræða. Ég kom því inn í síðari hálfleik með fulla orku. Ég gat því djöflast allan tímann en ég skoraði lítið. Vegna breiddarinnar sem er í liðinu þá getum við verið með ferska menn inn á lokakaflanum í leikjum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert