Tindastóll sópaði Grindavík úr keppni

Sigtryggur Arnar Björnsson í baráttunni við J'Nathan Bullock og Sigurð …
Sigtryggur Arnar Björnsson í baráttunni við J'Nathan Bullock og Sigurð Gunnar Þorsteinsson í kvöld. Ljósmynd/Hjalti Árnason

Þriðji leikur Tindastóls og Grindavíkur í úrslitakeppninni í körfubolta fór fram í kvöld á Sauðárkróki.  Tindastóll var með 2:0 forustu í einvígi liðanna fyrir leikinn. Krókódílarnir höfðu unnið fyrsta leikinn eftir farmlengingu og þann seinni með 31 stigs mun í Grindavík.

Það var því að duga eða drepast fyrir Grindvíkinga ef kvöldið átti ekki að enda með snemmbúnu sumarfríi. Þeir virkuðu algjörlega klárir í upphituninni og stuðningsmenn þeirra voru fjölmennir og háværir.

Kom líka á daginn að gestirnir ætluðu heldur betur að láta finna fyrir sér. Með hröðum leik og dugnaði í fráköstum komust þeir framúr um miðjan fyrsta leikhlutann. Héldu gestirnir undirtökunum fram að hálfleik en þó komust Stólarnir yfir í tvígang á þeim kafla. Voru það fráköstin sem gerðu gæfumuninn hjá Grindavík en á tímabili voru þeir með fleiri sóknarfráköst en varnarfráköst.

Staðan var 41:41 í hálfleik eftir að Grindvíkingar höfðu klúðrað lokasókn sinni og hleypt Stólunum í hraðaupphlaup sem skilaði körfu á lokasekúndunni.

Enn voru það Grindvíkingar sem settust undir stýri og þeir leiddu áfram og nú allan þriðja leikhlutann. Eftir hann var staðan 59:60 og allt í járnum. Stólarnir tóku við stýrinu í lokaleikhlutanum en þó var munurinnn aldrei meiri en fjögur stig. Grindvíkingar jöfnuðu í 78:78 þegar mínúta var eftir. Stólarnir settu tvö víti, Grindvíkingar misstu boltann og Stólar settu eitt víti niður í viðbót. Grindavík fékk nægan tíma í sókn en þeim tókst ekki að jafna og Skagfirðingar kláruðu svo leikinn af vítalínunni. Lauk leiknum 84:81.

Stólarnir þurfa nú að bíða rólegir til að sjá hverjir verða þeirra næstu mótherjar en þar koma ÍR og KR til greina. Mikill sjónarsviptir er af liði Grindvíkinga með þá Dag Kár og Sigga Þorsteins í fararbroddi.

Sauðárkrókur, Úrvalsdeild karla, 23. mars 2018.

Gangur leiksins:: 4:4, 10:10, 12:18, 22:23, 24:32, 29:34, 35:34, 39:41, 43:49, 49:52, 54:56, 59:60, 68:66, 71:70, 76:74, 84:81.

Tindastóll: Sigtryggur Arnar Björnsson 21, Antonio Hester 17/8 fráköst, Axel Kárason 12/5 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 7/5 stoðsendingar, Viðar Ágústsson 6, Hannes Ingi Másson 6, Friðrik Þór Stefánsson 5, Chris Davenport 4, Helgi Rafn Viggósson 4, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 2.

Fráköst: 24 í vörn, 6 í sókn.

Grindavík: Sigurður Gunnar Þorsteinsson 20/7 fráköst/5 stoðsendingar, Ingvi Þór Guðmundsson 16/5 fráköst, J'Nathan Bullock 15/7 fráköst, Dagur Kár Jónsson 15/6 fráköst/6 stoðsendingar, Ólafur Ólafsson 7/7 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 6, Ómar Örn Sævarsson 2.

Fráköst: 24 í vörn, 10 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Tómas Tómasson, Eggert Þór Aðalsteinsson.

Áhorfendur: 650

Tindastóll 84:81 Grindavík opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert