KR malaði Tindastól á Sauðárkróki

Kendall Pollard treður yfir leikmenn Tindastóls í kvöld.
Kendall Pollard treður yfir leikmenn Tindastóls í kvöld. Ljósmynd/Hjalti Árnason

Úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitilinn í körfubolta karla hófst í kvöld á Sauðárkróki. KR var þar í heimsókn hjá Tindastólsmönnum og er skemmst frá því að segja að KR tók heimamenn í hálfgerða kennslustund. Lauk leiknum með öruggum KR sigri, 75:54 og leiða Vesturbæingar því einvígið 1:0.

Fyrsti leikhluti var leikhluti góðs varnarleiks. Tindastóll byrjaði af krafti en KR-vörnin lokaði síðan afar vel og voru Stólarnir þvingaðir í erfið skot eða tapaða bolta. Svipað var uppi á teningnum hinum megin. KR-ingar sóttu að vísu mun meira inn í teig en settu lítið niður. Staðan var 17:14 fyrir Tindastól eftir fyrsta leikhlutann þar sem Pétur Rúnar Birgisson dró sína menn áfram.

Sami barningur hélt áfram í öðrum leikhlutanum en Tindastóll hitti ekki neitt. Þeir skoruðu fjögur stig fyrstu sex mínúturnar og KR komst yfir. Staða KR vænkaðist svo fram í hálfleik þar sem Tindastóll komst ekkert gegn vörn KR-inga. Munurinn fór mest í ellefu stig, 36:25, en tveir Stólaþristar í lok hálfleiksins löguðu stöðu heimamanna. Í hálfleik stóð 38:31 fyrir KR og Antonio Hester var nýbúinn að misstíga sig. Pétur Rúnar Birgisson og Sigtryggur Arnar Björnsson voru báðir með tíu stig í hálfleik en Björn Kristjánsson og Jón Arnór Stefánsson voru stigahæstir KR-inga með tíu og fimm stig. Það er ansi magnað þar sem þeir byrjuðu báðir á bekknum.

Ekki batnaði ástandið hjá Stólunum í þriðja leikhlutanum og KR hélt þeim í fimm stigum fyrstu fimm mínúturnar. Skotnýtingin seig niður í 25%. Munurinn hélst í kringum tíu stigin og Antonio Hester sat meiddur á bekknum hjá Tindastóli. Staðan fyrir lokaleikhlutann var 53:43 KR í vil. Enn jókst munurinn og KR fór að setja niður þrista í bunkum. Þetta var því aldrei spurning og Stólarnir voru bara fegnir þegar leiknum lauk, eflaust sárir á bossanum eftir þessa rassskellingu.

Næst eigast liðin við í DHL-höllinni á sunnudag. Það eina sem Tindastóll hefur með sér fyrir þann leik er sú staðreynd að liðið hefur enn ekki tapað á útivelli í úrslitakeppninni.

Sauðárkrókur, Úrvalsdeild karla, 20. apríl 2018.

Gangur leiksins:: 7:3, 7:6, 13:8, 17:14, 19:17, 21:19, 23:30, 31:38, 33:38, 33:41, 39:51, 41:53, 47:59, 49:65, 51:70, 54:75.

Tindastóll: Sigtryggur Arnar Björnsson 15, Pétur Rúnar Birgisson 14/4 fráköst, Chris Davenport 9/9 fráköst, Axel Kárason 5/4 fráköst, Antonio Hester 4/10 fráköst, Friðrik Þór Stefánsson 3, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 2, Hannes Ingi Másson 2.

Fráköst: 25 í vörn, 7 í sókn.

KR: Jón Arnór Stefánsson 13, Brynjar Þór Björnsson 13/4 fráköst, Kristófer Acox 10/9 fráköst, Björn Kristjánsson 10, Pavel Ermolinskij 9/11 fráköst/9 stoðsendingar, Kendall Pollard 8/6 fráköst, Marcus Walker 5/4 fráköst, Helgi Már Magnússon 4/4 fráköst, Darri Hilmarsson 3.

Fráköst: 38 í vörn, 6 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Leifur S. Gardarsson, Eggert Þór Aðalsteinsson.

Áhorfendur: 900

Tindastóll 54:75 KR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert