Tindastóll jafnaði gegn KR

Jón Arnór Stefánsson með boltann í leiknum í kvöld en …
Jón Arnór Stefánsson með boltann í leiknum í kvöld en Björgvin Hafþór Ríkharðsson til varnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tindastóll nældi í sigur gegn KR 98:70 í Frostaskjóli í kvöld og jafnaði þar með úrslitarimmuna um Íslandsmeistaratitil karla í körfuknattleik 1:1. Liðin mætast í þriðja skipti á Sauðárkróki á miðvikudagskvöldið en vinna þarf þrjá leiki til að verða Íslandsmeistari.

Þótt úrslitin gefa það ekki til kynna þá var leikur liðanna jafn í fyrri hálfleik en að honum loknum höfðu Skagfirðingar yfir 50:44.  Snemma í þriðja leikhluta tóku Sauðkrækingar frumkvæðið með afgerandi hætti. Þeir spiluðu frábærlega í þriðja leikhluta og þann leikhluta vann Tindastóll 30:16.

Útlitið var því orðið svart fyrir KR-inga fyrir síðasta leikhlutann og þeir náðu ekki að hleypa spennu í leikinn á ný. Skagfirðingar lönduðu sanngjörnum sigri af öryggi en KR skoraði aðeins 26 stig í seinni hálfleik þegar uppi var staðið. 

KR hafði betur 75:54 í fyrsta leiknum á Sauðárkróki og Skagfirðingar þurftu því að sanna eitt og annað fyrir sjálfum sér og sínum stuðningsmönnum enda 54 stig sláandi lítið skor á heimavelli. Þeir gerðu það í kvöld og voru á margan hátt frábærir. Viljinn var mun meiri hjá leikmönnum Tindastóls og sást í ýmsum atriðum leiksins. Þeir köstuðu sér á eftir lausum boltum, náðu ótrúlegustu sóknarfráköstum og börðust eins og ljón. Enda þýðir ekkert minna þegar sækja þarf sigur í vesturbæinn gegn reyndu liði KR sem orðið hefur meistari síðustu fjögur árin. 

Pétur Rúnar Birgisson skoraði 26 stig í kvöld.
Pétur Rúnar Birgisson skoraði 26 stig í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kendall Pollard og Kristófer Acox skoruðu 12 stig hvor fyrir KR en stigaskorið dreifðist mjög hjá KR-ingum. Pétur Rúnar Birgisson var stigahæstur hjá Tindastóli með 26 stig og var magnaður í fyrri hálfleik en þá gerði hann 21 stig. Fleiri uppaldir leikmenn Tindastóls voru mjög góðir eins og Helgi Rafn Viggósson sem gerði 18 stig og tók 10 fráköst og Axel Kárason sem var með 14 stig og setti niður fjóra þrista.

Lið KR: Brynjar Þór Björnsson, Kristófer Acox, Björn Kristjánsson, Jón Arnór Stefánsson, Arnór Hermannsson, Helgi Már Magnússon, Marcus Walker, Darri Hilmarsson, Vilhjálmur Kári Jensson, Pavel Ermolinskij, Sigurður Þorvaldsson, Kendall Pollard. 

Lið Tindastóls: Axel Kárason, Friðrik Þór Stefánsson, Sigtryggur Arnar Björnsson, Pétur Rúnar Birgisson, Helgi Freyr Margeirsson, Björgvin Þór Ríkharðsson, Hlynur Freyr Einarsson, Hannes Ingi Másson, Viðar Ágústsson, Finnbogi Bjarnason, Helgi Rafn Viggósson, Chris Davenport. 

KR 70:98 Tindastóll opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert