„Við vorum raunsæir“

Axel Kárason skilaði sínu fyirr Tindastól í kvöld.
Axel Kárason skilaði sínu fyirr Tindastól í kvöld. mbl.is/Hari

Axel Kárason skoraði 14 stig fyrir Tindastól þegar liðið vann stórsigur á KR í DHL-höllinni í kvöld 98:70. Þar með er staðan jöfn í rimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn 1:1 en Skagfirðingar skoruðu fjörtíu og fjórum stigum meira í öðrum leik liðanna en í þeim fyrsta sem KR vann 75:54. 

Við náðum að skrúfa kraftinn aðeins upp. Við gerðum allt af aðeins meiri krafti á báðum endum vallarins en í fyrsta leiknum. Þannig gerðum við okkur lífið aðeins auðveldara. Við náðum góðum stoppum og fengum opin skot. Auðvitað hittum við töluvert betur en á föstudaginn og það hjálpar,“ sagði Axel sem sjálfur setti fjóra þrista í leiknum. Hann sagði raunsæi hafa skipt máli fyrir Tindastól í ljósi þess að Antonio Hester gat ekki verið með vegna meiðsla. 

„Við vorum nokkuð raunsæir á hvaða vopn við höfum. Þótt Hester sé ekki þá erum við enn mjög góðir. Aðrir leikmenn eru góðir en á annan hátt. Við geðrum okkur grein fyrir því hvernig við vildum sækja á KR-vörnina og hvernig við vildum sækja sigurinn.“

Allir fimm leikir liðanna hafa verið ójafnir í vetur. Tveir í deildinni, bikarúrslitaleikurinn og tveir nú í úrslitakeppninni. Tindastóll hefur unnið þrjá og KR tvo. Axel á erfitt með að útskýra hvers vegna alltaf er um stórsigra að ræða. „Já ég held að allir leikirnir hafi unnist með meira en tuttugu stiga mun. Ég veit ekki hvert svarið er. Þegar liðin eru svona vel mönnuð í öllum stöðum en annað nær flæðinu í sinn leik en hitt ekki þá er verið að skjóta úr öllum stöðum. Þá er hleypt af öllum fallbyssum alls staðar á vellinum. Þá verður þetta oft svona,“ sagði Axel Kárason í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert