Houston og Utah í góðri stöðu

James Harden var stigahæstur eins og oft áður.
James Harden var stigahæstur eins og oft áður. AFP

Houston Rockets og Utah Jazz eru komin í góð mál í úrslitakeppni bandaríska NBA-körfuboltans eftir sigra í nótt. Bæði eru komin með 3:1-forystu í einvígum sínum og þurfa því aðeins einn sigur til viðbótar til að fara áfram í 1. umferð.

Houston vann öruggan útisigur á Minnesota Timberwolves, 119:100. Houston skoraði 50 stig í þriðja leikhluta og lagði grunninn að sigrinum. James Harden skoraði 22 af þeim stigum og alls 36 stig. Chris Paul bætti við 25 stigum, en Karl-Anthony Towns gerði 22 stig og tók 15 fráköst fyrir Minnesota. 

Oklahoma City Thunders byrjaði betur á útivelli gegn Utah Jazz, en góður 2. og 3. leikhluti kom Utah í bílstjórasætið og urðu lokatölur 113:96, Utah í vill. Donovan Mitchell skoraði 33 stig fyrir Utah og Joe Ingles bætti við 20 stigum. Paul George gerði 32 fyrir Oklahoma. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert