Leikbönn og sektir fyrir lætin í NBA

Brandon Ingram fékkst lengsta bannið og lendir hér saman við …
Brandon Ingram fékkst lengsta bannið og lendir hér saman við leikmenn Houston Rockets. AFP

Forráðamenn NBA-deildarinnar í körfuknattleik hafa gripið í taumana eftir að upp úr sauð í leik Los Angeles Lakers og Houston Rockets aðfaranótt sunnudags.

Brandon Ingram, leikmaður Lakers, braut á James Har­den, leik­manni Rockets, með þeim af­leiðing­um að allt sauð upp úr í fjórða leik­hluta.Leik­menn létu hnef­ana tala inn á vell­in­um með þeim af­leiðing­um að Ingram, Rajon Rondo og Chris Paul voru all­ir rekn­ir út úr húsi.

Þremenningarnir hafa nú allir verið úrskurðaðir í keppnisbönn og þurfa að greiða sektir. Ingram fékk fjögurra leikja bann og Rondo liðsfélagi hans hjá Lakers fékk þriggja leikja bann. Paul, leikmaður Rockets, fékk svo tveggja leikja bann, en hann hefur sagt að upphafið á átökunum megi rekja til þess að Rondo hafi hrækt framan í sig.

Leikurinn fór 124:115 fyrir Rockets, en um var að ræða fyrsta heimaleik LeBron James í treyju Lakers.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert