Hugsunin sú að ég sé kominn til að vera

Dagur Kár Jónsson yfirgaf Dominos-deildina fyrir austurrísku úrvalsdeildina í sumar.
Dagur Kár Jónsson yfirgaf Dominos-deildina fyrir austurrísku úrvalsdeildina í sumar. mbl.is/Eggert

„Ég fæ alla vega séns núna, svo maður er vonandi að gera eitthvað rétt. Ég held að ég sé búinn að bæta mig, þann stutta tíma sem ég hef verið úti, og hlakka bara til að halda áfram að gera það,“ segir Dagur Kár Jónsson.

Dagur leikur væntanlega sinn fyrsta A-landsleik á fimmtudaginn þegar Ísland tekur á móti Belgíu í forkeppni EM í Laugardalshöll. Dagur var einmitt með landsliðið í huga þegar hann hélt í atvinnumennsku í sumar og samdi við Raiffeisen Flyers Wels í Austurríki.

„Ég er búinn að vera oftast í æfingahópnum þó að ég sé núna í fyrsta sinn í lokahóp. Það er bara virkilega spennandi, og gaman að koma heim og hitta strákana. Ég trúi því að það sé verið að gefa mér séns af því að ég hef verið að standa mig vel. Ég vona að þetta sé ekki eitthvert einstakt tilvik. Ég hugsa alla vega þannig að ég sé kominn til að vera. Ég ætla að reyna mitt besta til að skila mínu,“ segir Dagur. Ísland þarf helst á sigri að halda gegn Belgíu í erfiðum slag um efsta sæti riðilsins. Portúgal er þriðja lið riðilsins en Ísland tapaði 80:77 í Portúgal í september og Belgía vann Portúgal 66:65 á heimavelli. Riðlakeppninni lýkur í febrúar.

„Hópurinn lítur virkilega vel út og ég tel að við séum í flottu standi til að fara í þennan leik til að vinna. Ég hef ekki séð mikið af Belgunum en ég held að við eigum fullt af möguleikum gegn þeim og við ættum að geta nýtt okkur það að vera fljótari en þeir, sem eru með marga stóra leikmenn,“ segir Dagur.

Líður virkilega vel í Austurríki

Dagur kveðst kunna afar vel við sig hjá Flyers Wels, sem staðsett er í bænum Wels nærri Linz í Austurríki.

„Ég og kærastan mín búum bara rosalega vel þarna og líður virkilega vel. Þetta er flottur bær og þarna er allt til alls, og umgjörðin í kringum liðið er til fyrirmyndar,“ segir Dagur. Flyers Wels hafa unnið þrjá leiki en hins vegar tapað sex það sem af er leiktíð, og eru meðal neðstu liða deildarinnar.

„Það hefur gengið mjög vel hjá mér persónulega. Við byrjuðum tímabilið rosalega vel en höfum svo verið í miklum meiðslum og tapað nokkrum leikjum í röð. Það er því kannski fínt að fá smá frí núna og geta snúið við blaðinu þegar maður kemur aftur,“ segir Dagur.

Leikur Íslands og Belgíu er kl. 19.45 á fimmtudagskvöld í Laugardalshöll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert